Hafsteinn Hafsteinsson

Enginn sá hundinn
Hafsteinn Hafsteinsson: Enginn sá hundinn. Vísur eftir Bjarka Karlsson. Myndabók, Mál og menning, 2016

Aðalpersóna bókarinnar og sögumaður er hundur. Hann er jólagjöf til barna sem taka honum fagnandi en næstu jól fær fjölskyldan spjaldtölvur í jólagjöf og allir hætta að sjá hundinn. Hann tekur til ýmissa ráða til að vekja á sér athygli en ekkert dugir og hann er orðinn afar einmana þegar hann kynnist skemmtilegum ketti. Saman reyna þeir að fá fólk til að líta upp úr tölvunum og beita til þess öllum brögðum en komast um síðir að því það er „vonlaust að kljást við álbakka-ást“. Þeir gefast því upp á mannfólkinu og fljúga burt á vit nýrra ævintýra.

Enginn sá hundinn er fyndin og hugkvæm bók með ádeilubroddi því að hlutverkum manna og dýra er snúið við; fólkið er óvirkt, afskiptalaust og sér ekki eða heyrir en dýrin eru hlýleg og tilfinningarík, skapandi og virk. Myndir Hafsteins Hafsteinssonar eru fallegar og minna á teiknimyndir og myndabækur fimmta áratugarins um margt. Litir eru glaðlegir en mjúkir og „mannleiki“ hundsins og kattarins er undirstrikaður með skýrum útlínum þeirra öfugt við fólkið. Stærri og smærri myndir skiptast á í góðu flæði á síðum bókarinnar. Fjörlegar og vel kveðnar vísur Bjarka Karlssonar sem minna á rapptexta undirstrika bæði sorg og gleði félaganna góðu, „frábæru og fróðu“. Bókin er mjög vel heppnuð og mikilvægum boðskap komið á framfæri á gamansaman hátt.

Hafsteinn Hafsteinsson er nýútskrifaður myndskreytir frá Willem de Kooning akademíunni í Hollandi. Hann hefur tekið þátt í samsýningum en Enginn sá hundinn er hans fyrsta bók.

Bjarki Karlsson er málfræðingur, kerfisfræðingur og verðlaunað ljóðskáld. Bók hans Árleysi alda (2013) varð metsölubók í flokki ljóðabóka á Íslandi.