Handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2016

Nordisk Råds miljøpris 2016
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2016 hlýtur smáforritið „Too Good To Go“ frá Danmörku.

Smáforritið „Too Good To Go“ hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Það var tilkynnt rétt í þessu á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í tónleikahúsi DR í Kaupmannahöfn þann 1. nóvember 2016. 

Rökstuðningur dómnefndar

Smáforritið „Too Good To Go“ hlýtur tilnefningu því um er að ræða nýskapandi stafræna lausn sem á einfaldan og aðgengilegan hátt getur breytt viðhorfum neytenda og fyrirtækja til matarsóunar og auðlindanýtingar. Þjónustan auðveldar veitingastöðum og matvælafyrirtækjum að selja almenningi umframmatvæli, og almenningi að gera góð kaup.

Hugmyndin að baki forritinu getur verið öðrum hvatning til að koma á fót svipuðum verkefnum í öðrum atvinnugreinum, en hún hefur þegar breiðst út til annarra landa. Verkefnið er í samræmi við ný heimsmarkmið um sjálfbæra þróun, sem ganga meðal annars út á að draga úr matarsóun og auðlindanotkun almennt.

Dregið úr matarsóun sem nemur 3 tonnum daglega

„Frá árinu 2015 höfum við selt 500 þúsund máltíðir gegnum forritð og dregið úr matarsóun sem nemur 3 tonnum daglega, sem er afar jákvætt fyrir loftslagið og umhverfið,“ segir Stian M. H. Olesen, sem veitti verðlaununum viðtöku ásamt Klaus Pedersen. Þriðjungi alls matar sem framleiddur er í heiminum er hent, um leið og fólk sveltur heilu hungri. Áhrif af mannavöldum á loftslag eru meiri en nokkru sinni fyrr. Við viljum gera eitthvað í því,“ sagði Olesen á verðlaunaafhendingunni.

„Við erum afar ánægð með umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, sem er mikil viðurkenning á framlagi okkar. Matarsóun er á meðal þriggja helstu þátta sem hafa neikvæð áhrif á umhverfið í dag, og því teljum við mikilvægt að vekja athygli á vandanum.“

Klaus Pedersen segir að æ fleiri verði áhugasamir um hina umhverfismeðvituðu nálgun fyrirtækisins.

„Forritið „Too Good To Go“ hefur verið sótt yfir 800 þúsund sinnum og fjöldi skráðra notenda vex um u.þ.b. 5 þúsund á dag. Fyrirtækið vex að meðaltali um 20% á mánuði, svo það er allt í fullum gangi.“