Inghill Johansen

Inghill Johansen, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Inghill Johansen 

Photographer
Pernille Marie Walvik
Inghill Johansen: Dette er G. Skáldsaga. Forlaget Oktober, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Höfundarverk Inghill Johansen er ekki á meðal þeirra sem mest fer fyrir í norskum samtímabókmenntum, þrátt fyrir að allar hennar bækur séu af óvenju miklum gæðum. Frá frumrauninni, skáldsögunni Hjertehvitt („Hjartahvítt“, hefur ekki komið út á íslensku) sem kom út árið 1991, hefur hún gefið út fjórar prósabækur: Suge (1996 („Sjúga“, hefur ekki komið út á íslensku)), Klage (2002 („Kvarta“, hefur ekki komið út á íslensku)), Forsvinne (2009 („Hverfa“, hefur ekki komið út á íslensku)) og Bungalow (2016 („Íbúðarhús“, hefur ekki komið út á íslensku)). Nú hefur hún skrifað aðra skáldsögu og sú bók innsiglar og heldur áfram með stef sem lesendur Johansen þekkja úr fyrri verkum hennar – örlög föðurins, merkingu staðar, kringumstæður sjálfsins – og það með meistaralegum hætti.

Dette er G („Þetta er G“, hefur ekki komið út á íslensku) er bók föður, og bók dótturinnar, hennar sem tengist ætt, fjölskyldu og stað. Í skáldsögunni er dramatískum atburðum og hversdagslegum atvikum lýst af sömu nákvæmni og tilfinninganæmi, stýrt af árvökulli og mildri athugunargáfu. Húsið gegnir þýðingarmiklu hlutverki við að halda utan um hinn órannsakanlega og undursamlega gang tímans. Staðurinn G rammar söguna inn og hnýtir mismunandi hluta hennar og hughrif saman. Taktskipti eiga sér stað þegar nútíð sögunnar dregur fortíðina að lokum uppi, en svo er horfið aftur á byrjunarreit í lok frásagnarinnar þegar sögumaður kemur aftur til G í síðasta sinn.

Kannski má skilja þessa skáldsögu sem fornleifauppgröft þar sem hið efniskennda öðlast merkingu sem minnir á kennsl. „Búslóðin mín minnir á eitthvað sem fundist hefur í gröf frá fornöld,“ segir á einum stað; nálgun sem er dæmigerð fyrir Johansen og sýnir að nánast fljótandi sýn hennar á tilveruna sleppir aldrei takinu á hinu áþreifanlega og jarðbundna. Kímnigáfan er þarna, þó ekki á uppáþrengjandi hátt heldur fremur til að veita innsýn í þau fljótandi skilyrði sérhvers mannslífs sem tekið geta á sig óvænta mynd – í senn sársaukafulla og lágstemmda.

Johansen skrifar um það sem er og það sem hverfur, og hún er gædd sérstökum hæfileika til að setja lífið sem lifað er hér og nú í samhengi sem stendur aldrei ógn af íþyngjandi lýsingum hins hefðbundna. Hinir þrír miðpunktar – dauði föðurins, staðurinn og ævi sögumannsins – eru tengdir saman á hátt sem lætur lítið yfir sér. Þetta er ekki höfundur sem hrópar með „útirödd“. Johansen er flestum færari í því að sameina raunsæja sýn og auðmýkt sem ýjar að því að heimurinn þarfnist ekki veru okkar í honum til þess að vera. Hún þorir að nálgast það sem fljótt á litið virðist ómerkilegt, á hátt sem gæðir tilvist hlutanna skínandi dulúð. Jafnvel það allra fyrirferðarminnsta sem sýnist ómerkilegt í fyrstu, virðist Johansen vera að segja, getur haft áhrif á okkur á máta sem við höfum sjálf ekki yfirsýn yfir.

Dette er G markar hátind í höfundarverki Johansen og í norskum bókmenntum yfirleitt.