Inka Nousiainen & Satu Kettunen

Yökirja
Inka Nousiainen & Satu Kettunen: Yökirja. Myndabók, Tammi 2015

„Hefurðu nokkurn tíma haldið næturdagbók?

Mig hefur lengi langað að spyrja einhvern að þessu. Og loks gerist það eina nóttina, þegar himinninn er aftur dálítið skýjaður og stjörnurnar eins og þær séu úr möttum pappír, að ég klifra sjálfur upp á hæðina og veit að minn tími er kominn.“

Yökirja („Næturbókin“, hefur ekki komið út á íslensku) eftir Inku Nousiainen og Satu Kettunen (myndskr.) er frásögn af þögn, vináttu, því að vera öðruvísi og því að vera meðtekinn eins og maður er. Aðalpersóna bókarinnar er viðkvæmur og íhugull sex ára drengur að nafni Kuu (Máni). Nafn drengsins er táknrænt fyrir dálítið sérstakt í fari hans: hann er með ofnæmi fyrir sólskini. Hann þarf að vera í sérstökum hlífðarfötum á daginn og er aðeins fyllilega frjáls um einmanalegar nætur. Nótt eina hittir Kuu stúlku að nafni Raa undir tré, og finnur að við hana getur hann talað um hvað sem er.

Í Yökirja er bæði að finna raunsæi og ríkt hugarflug. Saga Nousiainen er marglaga og krökk af táknum. Nöfnin Kuu og Raa – sem vísar til sólguðsins Ra – eru merkingarlegar andstæður, en í samskiptum barnanna hverfur það sem greinir þau að og þau finna að þau eiga í raun margt sameiginlegt. Það sem greinir börnin að verður líka að helsta styrk vináttu þeirra þegar nátthrafninn Kuu kennir Raa, sem er vön að vaka á daginn og sofa á nóttunni, hvernig skrifa á næturdagbók.

Sagan sem sögð er í Yökirja er ljóðræn og heimspekileg. Margrætt textaflæði og litskrúðugar teikningar af fyrirbærum næturinnar vekja án efa margvísleg hughrif hjá lesendum á öllum aldri. Frásögnin kann að virðast einföld við fyrstu sýn, en verkið vanmetur ekki lesendur sína heldur sýnir þeim eitthvað nýtt með hverjum lestri.

Persónur Yökirja eru sérlega trúverðugar og skrifaðar af mikilli næmi. Vinátta þeirra Kuu og Raa er táknræn fyrir áleitin umhugsunarefni tengd samskiptum barna, og fólks yfirleitt, til dæmis hvað það snertir að meðtaka fólk sem er öðruvísi en maður sjálfur. Í byrjun hikar Kuu við að segja nýju vinkonu sinni að hann noti hlífðarföt á daginn, en allar áhyggjur víkja þegar hlífðarfötin umbreytast í einstaklega fallegan geimbúning í augum barnanna. Þegar Raa sér búninginn gerir hún ekki grín að honum, heldur andvarpar af aðdáun: „Vá!“

Myndir og orð verksins kallast listilega á og bæta hvað annað upp. Hugsunum, bakgrunni og tilveru Kuu er lýst með orðum um leið og myndskreytingarnar ljúka umhverfi hans og heimi upp fyrir lesandanum, en myndirnar lýsa einnig innri veruleika hans. Ljóðræn og hæglát frásögnin með litskrúðugum og hugvitsamlegum myndskeytingum gefur tilefni til að hugleiða og íhuga ýmsar mannlegar tilfinningar. Bókin er krökk af skemmtilegum smáatriðum og leikur barnanna fullur af athafnasamri gleði, en þó er einnig rými fyrir þögn og sorg:

„Stundum verð ég þögull af engri sérstakri ástæðu. Og stundum verður þögnin svo stór að það er ekki pláss fyrir hana heima hjá mér. Þess vegna verð ég að fara með hana annað, þar sem henni líður best. Ég fer með þögnina mína til Raa.“

Neikvæðar og jákvæðar tilfinningar koma fyrir í jöfnum hlutföllum, á svipaðan hátt og sá andstæðumunur sem er á Kuu og Raa við fyrstu sýn. Raa er vön að gráta þegar allt er sérlega fallegt. Í þessu verki fylgjast að gleði og sorg og í næturveruleika þess er rúm fyrir ótta og áhyggjur jafnt sem gleði, vináttu og leik.