Karin Erlandsson

Karin Erlandsson, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Karin Erlandsson

Ljósmyndari
Marcus Boman
Karin Erlandsson: Hem. Skáldsaga. Schildts & Söderströms og Bokförlaget Forum, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Hafið er vegur sem liggur út í heiminn og sem leiðir sjómanninn stundum heim.

Hafið er forsenda þess að búa á eyju. Það þarf stöðugt að fylgjast með hræringum þess; svalandi öldur hafsins geta orðið hættulegar og ógnandi á augabragði. Eyjarskeggjar anda í takt við hafið, þar sem kraftar lífs og dauða mætast.

Allt þetta skapar tilvistarlegan hljómgrunn fyrir skáldsöguna Hem („Heim“, hefur ekki komið út á íslensku) eftir Karin Erlandsson, sem er framlag Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Erlandsson er fyrst og fremst þekkt fyrir barna- og ungmennabækur sínar. Sá furðuheimur sem hún skapaði í fjórleiknum Legenden om ögonstenen hefur vakið alþjóðlega athygli. Tvær af bókunum í fjórleiknum, Pärlfiskaren (2017 („Perlufiskarinn“, hefur ekki komið út á íslensku)) og Segraren (2019 („Sigurvegarinn“, hefur ekki komið út á íslensku)) voru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, svo og ævintýrabókin Nattexpressen (2020 („Næturhraðlestin“, hefur ekki komið út á íslensku)). Umfangsmikið höfundarverk hennar telur einnig fjölda skáldsagna með spennuívafi.

Í Hem sýnir hún á sér nýjar og áhrifamiklar hliðar. Bókinni hefur verið lýst sem „kollektivroman“, þ.e. skáldsögu sem fjallar ekki um eina eða tvær aðalpersónur heldur um stærri hóp fólks, en einnig má segja að hér sé á ferð röð frásagna í smásöguformi með sameiginlegu grunnstefi. Bókin spannar sögu Álandseyja á sex þúsund ára tímabili, allt frá steinöld til okkar daga, þar sem sjónarhorn kvenna er ráðandi út í gegn. Í mildum og lágstemmdum prósa lýsir höfundur mæðrum sem sinna öllu því praktíska heima fyrir á meðan karlarnir eru yfirleitt á sjó og því fjarverandi mánuðum eða árum saman.

Kringumstæðurnar geta verið furðulíkar gegnum aldirnar: söknuður, kvíði og óvissa eru hlutskipti álenskra kvenna allt frá herferðum víkingatímans fram til siglinga stórra skemmtiferðaskipa yfir Álandshaf. Hvað verður um ástina, um börnin, þegar svo stór hluti lífsins á sér stað í fjarska? Hvernig er hægt að þola það að þrá stöðugt? Og hvernig á að takast á við vonbrigðin þegar sá sem saknað var snýr loksins aftur, og tómleiki og ókunnugleiki blasa við?

Töfrum gæddur steinn – grár með hvítum hring svo að minnir á auga – verður að tákni um von sem bindur hinar tíu frásagnir saman. Steinninn er til staðar í núinu en jafnframt fyrir utan gang tímans, líkt og öruggur dvalarstaður allra hugsana.

 

Þetta er fallegt, vekur lesandann til umhugsunar og snertir við honum.

Karin Erlandsson tekst hér á við kaldan veruleika, víðsfjarri rómantískum sveitasælulýsingum á tilverunni í skerjagarðinum. Texti hennar er raunsær og án þess að fegra viðfangsefnið, en einmitt þess vegna verður hann svo trúverðugur. Draumarnir eru vissulega til staðar en allt snýst þó um að lifa af, að þrauka. Erlandsson leggur mikið upp úr sögulegum smáatriðum: öllu er rétt lýst í sambandi við störf fólks, hvort sem verið er að veiða fisk eða baka þjóðarbrauð Álendinga, „hemvete“. Mikilvægi skipaferða fyrir hagsæld á Álandseyjum nútímans er undirstrikað í mörgum sagnanna. Það sem máli skiptir er að eiga kaffikönnu og skipshlut, eins og segir í sjómannsbréfi.

Þessi yfirvegaða skáldsaga er óður til eyjalífsins, til lífsmynsturs í takt við náttúruna, þar sem sjálfgefið er að konurnar beri mesta ábyrgð á því að hversdagslífið hafi sinn gang.

Hafið gefur og hafið tekur. Berskjöldun og kvíði eru hlutskipti eyjarskeggjans. En þessi skilyrði skapa líka ósveigjanlegt og sjálfsmeðvitað fólk, knúið áfram af innri krafti sem gerir sporin léttari og veitir huganum vængi.

Lífsbaráttan er hörð, en þó er lífið ekki tilgangslaust. Sterkir vindar þrautseigju og trausts blása um Hem eftir Karin Erlandsson, með endurómi sem stundum minnir á biblíutexta. Eins og þegar gamli kirkjusmiðurinn Birger fer út á ísi lagðan sjóinn. „Heldur hann?“ spyr hann, og dóttirin Ragnhild svarar hughreystandi: „Ef ísinn heldur mér, þá heldur hann þér.“