Kristina Carlson

Kristina Carlson, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Kristina Carlson

Photographer
Cata Portin
Kristina Carlson: Eunukki. Skáldsaga. Otava, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

„Ég er sjötugur, kannski aðeins yngri, kannski aðeins eldri. Nákvæman aldur minn veit ég ekki. Ég var níu ára þegar ég var skorinn og dvöl mín við hirðina hófst. Við hirðina fékk ég nýtt nafn: Wang Wei.” Þannig kynnir sögumaður skáldsögunnar Eunukki („Geldingurinn“, hefur ekki komið út á íslensku) sjálfan sig. Hann er hirðgeldingur sem sestur er í helgan stein, lítur yfir farinn veg og rifjar upp lífshlaup sitt við hirð Song-keisaraveldisins í Kína á 12. öld. Í gegnum frásögn Wang Wei veltir höfundur upp sígildum viðfangsefnum á borð við ástina og dauðann, vald og það að vera utangarðs.

Wang Wei varð viðskila við fjölskyldu sína en á sem betur fer vini við hirðina – aðra geldinga. Geldingarnir eru álitnir hættulausir og gegna margs konar störfum við hirðina; þannig starfaði Wang Wei lengi í kvennabúri keisarahallarinnar. Vinir og fyrirmyndir skipta Wang Wei miklu máli, þar sem hann er ekki fær um holdlega ást og getur ekki eignast afkomendur til að elska. Ástin og birtingarmyndir hennar heilla hann þó og í hugleiðingum sínum um ástina veltir hann kynjunum einnig fyrir sér. Sem geldingur getur hann séð eiginleika karla og kvenna og samskipti þeirra líkt og frá hlutlausu sjónarhorni.

Wang Wei hefur lært að lesa og reikna, en lauk aldrei embættismannaprófi. Hann hefur þó notið velgengni sökum þægilegrar skapgerðar sinnar. Til að spjara sig við hirðina þarf að forðast að blanda sér í valdadeilur eða dreifa orðrómum – gróusögur er vopn og slúðrið gjaldmiðill, og því borgar sig að vega og meta hvert orð sem látið er falla. Þegar Wang Wei er leystur frá skyldustörfum og sest í helgan stein þorir hann þó að láta hugann reika.

Hann vill ekki hugsa um dauðann, en á hans aldri læðast slíkar hugsanir að þrátt fyrir það. Hann hefur horft á eftir hverjum keisaranum á fætur öðrum í gröfina og vinunum fer einnig fækkandi. Heilsubrestur veldur honum áhyggjum, en þó að líkaminn sé eins og gamall strigapoki streymir hugsunin fram, tær eins og fjallalækur. Það skortir hvorki brodd né kímni í endurminningar hins geðgóða geldings. „Ég er sjötugur! Ég vil fylgja löngunum hjartans og rjúfa mörk hefðarinnar!“

Í þessari skáldsögu kannar Kristina Carlson einsemdina, mennskuna og tengsl einstaklingsins við samfélagið. Hinn fjarlægi tími og staður sögunnar hefur framandgerandi áhrif og undirstrikar tímaleysi þeirra hugleiðinga sem leita á hinn aldraða gelding. Tær og nákvæmur stíll Carlson er ljóðrænn, oft svo að minnir á spakmæli, og svipmyndirnar sem hún bregður upp minna á kínversk ljóð eða tréskurðarmyndir.

Kristina Carlson (f. 1949) hefur unnið við blaðamennsku og birt ungmennabækur undir höfundarnafninu Mari Lampinen. Fyrsta skáldsaga hennar, Maan ääreen („Að endimörkum jarðarinnar“, hefur ekki komið út á íslensku), hlaut Finlandia-verðlaunin árið 1999. Fyrir aðra skáldsögu sína, Herra Darwinin puutarhuri (2009 („Garðyrkjumaður herra Darwins“, hefur ekki komið út á íslensku)), fékk Carlson bókmenntaverðlaun finnska ríkisins og Kiitos kirjasta-verðlaunin, og bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.