Lani Yamamoto

Lani Yamamoto
Photographer
Börkur Arnarson
Lani Yamamoto: Egill spámaður. Myndabók, Angústúra, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Egill spámaður er hæglátur og innhverfur drengur sem er hræddur við að tjá sig því það kemur alltaf allt öfugt út úr honum og þá hlæja hin börnin að honum. Þess vegna er hann þögull og þess vegna kýs hann að vera einn. Egill sækist eftir reglufestu og gerir það sama dag eftir dag og alltaf í sömu röð. Helsta áhugamál hans er að fylgjast með sólarganginum og sjávarföllum og regluleg hrynjandi náttúrunnar veitir honum öryggiskennd. Hún er aldrei eins en lýtur alltaf sömu lögmálum.

Einn daginn brýst nýja stelpan í skólanum inn í rútínu Egils og brýtur upp reglufestuna. Þótt Agli finnist það erfitt kemst hann að því að það getur verið gaman að eiga vin og leika sér við aðra. Þekking Egils á sjávarföllunum kemur sér vel þegar óhapp verður í leik barnanna og á þannig sinn þátt í því að tengja þessi tvö börn sem þurfa bæði á vini að halda.

Egill spámaður er einstaklega falleg og vel útfærð myndabók. Textinn er knappur og framvinda sögunnar fer að miklu leyti fram í myndunum sem hafa meira vægi í frásögninni án þess þó að segja of mikið. Litir og birta skipta miklu máli í myndunum eins og önnur hrynjandi náttúrunnar. Sagan er fámál, eins og aðalpersónan, en hún býr yfir heimspekilegri íhugun.

Orðið „spá“ á íslensku merkir að geta sagt fyrir um óorðna hluti og veðurspá þýðir að segja fyrir um veðrið framundan. Egill er „spámaður“ í þeim skilningi að hann kann reglurnar og afbrigðin en óttast hið óvænta sem hann þarfnast þó svo mjög. Stelpan brýst inn í einmanaleika hans og hann kennir henni reglufestuna og þannig bæta þau hvort annað upp.

Egill spámaður fjallar á sinn hljóðláta hátt um klassísk viðfangsefni sem flest börn geta tengt sig við og reynast mörgum erfið viðfangs, það er óöryggi og óttann við að verða að athlægi, þörf fyrir reglufestu og mikilvægi vináttu og félagsskapar. Lani Yamamoto skapar hér áhugaverða aðalpersónu með sérstakt áhugamál og náin tengsl við náttúruna sem leikur stórt hlutverk í sögunni.

Lani Yamamoto hefur búið á Íslandi í rúm tuttugu ár. Egill spámaður er hennar sjötta barnabók og var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019 í flokki barna- og ungmennabóka. Bók hennar Stína stórasæng fékk Dimmalimmverðlaunin fyrir bestu myndskreyttu bókina og Fjöruverðlaunin, og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í flokki barna- og unglingabóka árið 2014. Bækur Lani hafa komið út víða um heim, meðal annars hjá Victoria & Albert safninu í London, og vakið verðskuldaða athygli.