Lív Maria Róadóttir Jæger

Lív Maria Róadóttir Jæger

Lív Maria Róadóttir Jæger

Photographer
Finnur Justinussen
Lív Maria Róadóttir Jæger: Eg skrivi á vátt pappír. Ljóðabók. Forlagið Eksil, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Þegar skrifað er á blautan pappír leysast orðin upp á meðan skrifað er. Pappírinn drekkur bókstafina í sig, kannski byrja orðin að líkjast öðrum orðum en þeim sem ætlunin var að skrifa. Þetta er næstum ómögulegt. En eftir stendur hið ritaða, það sem hefur staðnæmst á leiðinni frá tilurð til upplausnar.

Ljóðin í Eg skrivi á vátt pappír  („Ég skrifa á blautan pappír“, hefur ekki komið út á íslensku) eftir Lív Mariu Róadóttur Jæger byggja á tengslum við annað fólk og textatengslum við önnur ljóðskáld, rithöfunda og heimspekinga. Hinu áþreifanlega, hinu óhlutstæða og hinu hversdagslega er lýst á raunsæjan hátt. Stundum er það gert á jafn einfaldan og skýran hátt og ef um væri að ræða rökrétta hugtakagreiningu, en skyndilega brýst ljóðrænan fram, einhver túlkun á athugun eða skynjun sem er umlukin mynd og svo kannski brotin upp aftur með tilvitnun eða afar skorinorðri staðhæfingu unglingsstúlku sem vill helst fá að vera í friði. Ljóðmælandinn er ýmist barn, unglingur, námsmaður eða fullorðin manneskja, en hin rannsakandi sýn ljóðmælanda á umhverfi sitt er ávallt beitt, einnig í frásögn hins skynjandi og hugsandi sjálfs í fyrstu persónu.

Hverju og einu ljóði lýkur á svo nákvæman hátt að það kemur lesandanum nánast á óvart, en um leið eru öll ljóðin í bókinni tengd saman með skýrum frásagnarþræði – einföld sambönd endurtaka sig, eru fléttuð inn í ljóðin og út úr þeim aftur. Í forgrunni er amma, „safarík rauðgul“, og barnið hennar sem drukknar í á. Þó að um heildstætt verk sé að ræða eru ljóðin afar ólík að formlegum dráttum, og í þeim kannar höfundur með breytilegum stíl og orðfæri (hér er freistandi að nota orðið „hljóm“) ýmis tengsl og upplifanir sem almennt mætti lýsa sem veruleika sem á sér ekki rætur í tungumálinu, eða sem á rætur eldri en tungumálið – hvort sem um ræðir náin tengsl, lykt, næma skynjun, ertingu eða minningu. Ljóðmælandinn skrifar og öðlast skilning í leiðinni, stundum skrifar hann hreint út setninguna: „Ég skrifa“.

Á titilsíðu er innihaldi bókarinnar lýst með orðinu „ljóð“. Bókin samanstendur af átta hlutum og eru sumir þeirra ljóð, aðrir ljóðrænn texti í fremur stuttum brotum. Fyrsti og síðasti hlutinn heita „Vasabók“ og „Lífið er hamfarakennt. Bréfin“. Fyrstu ljóðin fjalla um ömmuna og lokahluti bókarinnar samanstendur af bréfum sem amman hefur sent og fengið, svo sem: „Kæra amma. Lífið er hamfarakennt. Hver einasti dagur er eins og endalok. Þannig líður mér.“ Einn bókarhlutinn heitir „Fyrirbærafræði í fimmtán liðum“, sem svo eru tölusettir kerfisbundið sem 1.0, 1.1, 1.2 og svo framvegis.

Amman er einstök en jafnframt eins og margar aðrar ömmur, og ljóðmælandi sér með augum sem ef til vill eru fengin í arf frá henni, með sýn sem er undir áhrifum hennar. Tilfinningar eru ekki tjáðar hreint út, tengingin við ömmuna kemur til dæmis fram í endurtekningu á ýmsu sem hún hefur staðhæft, svo sem „karlmönnum er ekki treystandi“, „æ, farðu í rass og rófu“, eða í skrásetningu á hrörnun hennar.

Eg skrivi á vátt pappír fjallar um að skrifa til þess að skilja tengslin og sambandið milli eigin hugsana og allra annarra, og um að skilja sjálfa sig sem barn, unga konu og manneskju sem tekur þátt í lífi annarra. Titill bókarinnar ber vitni um skýra málvitund skáldsins og að auki hið (allt að því freistandi) dásamlega opna og rannsakandi næma augnaráð sem rennur í gegnum hina átta hluta bókarinnar í ýmsum myndum.

Liv Maria Róadóttir Jæger (f. 1981) sendi frá sér ljóðahljómplötuna Mítt navn við hondskrift árið 2014 og sína fyrstu ljóðabók, Hvít sól, árið 2015 Hún er með meistaragráðu í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla. Eg skrivi á vátt pappír er önnur ljóðabók hennar.