Mikaela Nyman

Mikaela Nyman

Mikaela Nyman

Ljósmyndari
Fotograf: Ebony Lamb
Mikaela Nyman: För att ta sig ur en rivström måste man röra sig i sidled. Ljóðabók, Ellips förlag, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur: 

Í Mikaelu Nyman (f. 1966) mætast tveir hafluktir heimar, en hún er rithöfundur og blaðakona frá Álandseyjum sem hefur lengi verið búsett á Nýja-Sjálandi. Í fyrstu ljóðabók sinni, När vändkrets läggs mot vändkrets, sem var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020, dró hún upp hliðstæður milli þessara eyja í höfum heimsins með útgangspunkt í sjúkdómi og fráfalli systur sinnar. 

 Í nýju bókinni, För att ta sig ur en rivström måste man röra sig i sidled („Til að losna úr útsogsstraumi þarf að hreyfa sig til hliðar“, óþýdd), tekur hún upp sinn fyrri þráð í ljóðrænni rannsókn á flóknu eðli tilverunnar. Þetta gerir hún með traustum bókmenntalegum aðferðum. 

 Titill bókarinnar vísar til hafstrauma sem geta dregið sundfólk niður í djúpið ef það syndir ekki til hliðar í stað þess að synda á móti öldunum. Úr þessari mynd verða til ljóð sem fylla síðurnar líkt og allsherjarflæði hughrifa. Myndræn framsetning textans ljær honum taktfastan og alveg sérstakan slátt. Þrír punktar verða að merki um hlé, orð öðlast aukamerkingar með hjálp skástrika. Hér eru á ferð athuganir sem bylgjast milli djúpra tilvistarspurninga og hversdagslegra atburða. Eina stundina skrifar Nyman stuttar athugasemdir sem minna á dagbókarfærslur en þá næstu fæst hún við hinstu rök mannlegrar tilvistar. Ljóðin beina sjónum lesandans út í geiminn, að „marrandi niði alheimsins“ þar sem greinst hafa merki frá geimskutlu sem hefur brotlent, ekki ósvipað því andrúmslofti sem skapað er í framtíðarsýn Harrys Martinson í ljóðinu „Aniara“. 

 Þetta ljær textunum mikinn kraft og opnar á fjölda ólíkra túlkana. Heimsfaraldrinum, stríðinu í Úkraínu, loftslagsvandanum og almennri ringulreið er lýst á grundvelli syndaflóðs af ófullkomleika: „hvað varð um öll mjúku lögin?“ Í brjáluðum heimi blómstrar verslun með uppstoppuð dýr á meðan sprengjum rignir yfir varnarlaus fórnarlömb. 

 Þó má greina vaxandi von í myrkrinu miðju, þar sem börnin eru ljósberar í hvatvísi sinni. Mikaela Nyman fæst oft við það að gefa dýrum og plöntum nöfn: blautdýr, ondúlatar, þistilfiðrildi, bláregn. Enn er ekki um seinan að gróðursetja sólblóm. Hún skrifar um maórískar goðsögur af vatnaandanum Taniwha, sem er bæði ógnandi og hughreystandi afl. 

 Í tjáningarmáta ljóðanna býr nákvæmni sem nær hámarki í röð athugasemda um texta, skrifaðan í sandstein, sem afhjúpaður er af sjávarföllunum við strendur Nýja-Sjálands. Þetta eru ummerki um líf og drauma: „með vangann að sandinum leyfi ég mér að trúa“.