Rakel Helmsdal

Rakel Helmsdal
Ljósmyndari
Gwenaël Akira Helmsdal Carré
Rakel Helmsdal: Loftar tú mær? Myndabók, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Í þessari hjartnæmu frásögn um dauðann hittum við fyrir þrjú systkini sem hafa misst langömmu sína. Á stuttu tímabili, sem sagt er frá í þrígang frá mismunandi sjónarhornum, hittum við fyrst lítinn bróður sem er upptekinn af því að klifra upp í tré og sýna þannig hve stór hann er orðinn. Því næst hittum við systur sem flýgur flugdreka til að dreifa huganum. Loks hittum við stóra bróðurinn, sem ber ábyrgð á hinum tveimur, en situr bara við gamla brunninn og gefur sorginni lausan tauminn. Meðan skipt er frá einu sjónarhorni til annars verður sorgin smám saman greinilegri uns hún nær hámarki í minningum stóra bróður um langömmuna. Um leið birtast lausir endar úr fyrstu köflunum tveimur og renna saman í lokakafla þar sem systkinin þrjú tala saman og sameinast um leið í sorginni.

Í myndabókinni Loftar tú mær? kemur Rakel Helmsdal erfiðu umræðuefni í orð og myndir. Andrúmsloftið er dapurlegt en um leið þrungið lífsþrótti, því sú mynd sem dregin er upp af dauðanum er að hann sé eðlilegur og óhjákvæmilegur hluti lífsins – nokkuð sem ekki aðeins hin fullorðnu upplifa, heldur börnin líka. Samspilið milli texta og mynda veitir frásögninni sérstaka dýpt og ögrar bæði barninu og hinum fullorðna lesanda. Einkum er það leikur myndanna að ljósi og skugga og fjöldi margræðra smáatriða sem á þátt í að víkka út textann og gefa lesandanum tilfinningu fyrir nærveru.

Með þessari myndabók hefur rithöfundurinn Rakel Helmsdal einnig fest sig í sessi sem myndskreyti. Helmsdal, sem hóf höfundarferil sinn 1995 með bókinni Tey kalla meg bara Hugo, hefur undanfarin 25 ár drepið niður fæti innan flestra bókmenntagreina á sviði barna- og unglingabóka. Að auki hefur hún starfað við brúðuleikhús frá árinu 2011 þar sem hún býr til brúður og leikmyndir, skrifar handrit og fleira. Í myndabókinni sem nú er tilnefnd nýtir hún reynslu sína úr brúðuleikhúsinu; hefur búið til brúður, muni og leikmyndir og skapað út frá þeim hina myndrænu hlið bókarinnar, sem geislar af depurð og lífsgleði í senn.

Þetta er í þriðja sinn sem Færeyjar tilnefna bók eftir Rakel Helmsdal til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir. Hún hefur áður verið tilnefnd til verðlaunanna fyrir bækurnar Hon, sum róði eftir ælaboganum (2017) og Miljuløtur (2019). Að auki hefur hún tvisvar verið tilnefnd af Íslandi, ásamt meðhöfundum, fyrir bækurnar Skrímslaerjur (2013) og Skrímsli í vanda (2018). Árið 2016 hlaut Helmsdal barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins fyrir bókina . Árið 2019 var hún tilnefnd í fjórða sinn til hinna virtu ALMA-verðlauna.