Sara Bergmark Elfgren

Norra Latin
Sara Bergmark Elfgren: Norra Latin. Skáldsaga fyrir unglinga, Rabén Sjögren, 2017

Tvær táningsstelpur eru aðalpersónurnar í skáldsögu Söru Bergmark Elfgren, Norra Latin. Tamar er flutt frá Östersund til Stokkhólms til að láta leiklistardrauminn rætast. Clea er fædd inn í rétt umhverfi og er þegar búin að hasla sér völl sem leikkona. Leiðir þeirra mætast á leiklistarbrautinni í hinum virta menntaskóla Norra Latin í Stokkhólmi en aðstæður þeirra eru gjörólíkar. Clea er félagslynd, hún er með sætasta stráknum í skólanum og miðpunkturinn í bekknum. Tamar er óörugg, veit ekki hvar hún passar inn og henni gengur illa að eignast vini meðal leiklistarspíranna. Ekki bætir úr skák að hún verður ástfangin í Cleu.

Sara Bergmark Elfgren gefur stelpunum orðið til skiptis í sögu um félagslegan hlutverkaleik sem getur stýrt heilum bekk í menntaskóla. En frásögnin fjallar líka um annað sem rekja má til löngu liðinna atburða á þeim tíma þegar menntaskólinn var enn þá lærður skóli fyrir pilta. Eitthvað hræðilegt á að hafa gerst á Norra Latin sem lifir enn í flökkusögum sem nemendurnir hvísla hver að öðrum. Tamar rekur slóðina og uppgötvar að Norra Latin lumar á fleiri leyndarmálum en nokkurn hefði grunað. Þær Clea sogast inn í atburðarás þar sem valdagræðgi, forsögulegir kraftar og Draumur á Jónsmessunótt eftir Shakespeare gegna lykilhlutverki.

Norra Latin er vönduð skáldsaga þar sem Sara Bergmark Elfgren fléttar saman sagnfræði, goðsögnum og töfrum við hversdagsraunsæi. Með grípandi frásagnargleði lýsir hún angist og lífsdraumum táninga af holdi og blóði sem bögglast við að standa á eigin fótum og ekki í skugga annarra. Þær engjast út af einelti, skaðlegum samböndum, valdatafli og félagslegri einangrun. Höfundi tekst vel að segja frá tilfinningum og ótta. Lýsingarnar á Norra Latin þar sem þjóðernisrómantísk málverk prýða veggina, hringlaga stigum og óhugnanlegum loftgeymslum eru hárbeittar og nákvæmar. Þegar fortíð og nútíð mætast koma í ljós ákveðin vandamál, græðgi og mynstur sem hafa staðið af sér tímans tönn.

Skáldsagan er blanda af fantasíu og raunsæi og verður hvað sterkust þegar töfrar mæta skarpskyggni raunsæisins. Sara Bergmark Elfgren er óvenju lagin við að skapa góðar bókmenntir þar sem töfraívafið yddar raunsæið og gerir það meira sannfærandi og fantasíuívafið verður enn betri fantasía vegna þess hvað raunsæið er raunverulegt. Norra Latin menntaskólinn er löngu orðinn að ráðstefnuhúsi en lesendur skáldsögu Söru Bergmark Elfgren munu aldrei geta litið á húsið sem annað en leiklistarskóla.

Sara Bergmark Elfgren er rithöfundur, handritahöfundur og leikskáld. Hún hefur skrifað fjórar bækur fyrir unglinga ásamt Mats Standberg um Engelsfors, sem sló í gegn hjá lesendum og gagnrýnendum og hafa verið þýddar á 25 tungumál. Fyrsta bindið Cirkeln (2011) hlaut ýmis bókmenntaverðlaun og var kvikmynd byggð á henni. Sara Bergmark Elfgren hefur einnig skrifað myndabækur og kvikmyndahandrit auk þess sem hún skapaði framhaldsleikritið De dödas röster (2016) fyrir hlaðvarp sem var tilnefnt til Prix Europa-verðlaunanna.