Solvej Balle
Tíminn er genginn úr liði í mikilfenglegu prósaverki Solvej Balle, Om udregning af rumfang („Um útreikning rúmmáls“, hefur ekki komið út á íslensku). Eða eins og Shakespeare lætur Hamlet orða það í harmleiknum fræga: Time is out of joint. Söguhetjan í bók Solvej Balle, Tara Selter, hefur nefnilega stigið frá borði tímans gegn vilja sínum. Í veruleika hennar endurtekur 18. nóvember sig aftur og aftur. Allt í einu upplifir hún ekki lengur dagaskil, mánaðamót eða árstíðaskipti. Fólkið í kringum hana eldist ekki og á erfitt með að skilja hinn nýja og furðulega reynsluheim Töru, sem teygir sig nú yfir æ fleiri 18. daga nóvembermánaðar.
Nú eru útkomin þrjú af alls sjö fyrirhuguðum bindum um dvöl Töru fyrir utan gang tímans. Fyrstu bindin þrjú mynda þó þétt samhangandi heild, sem hvert bindi eykur við á nýja og ófyrirséða vegu. Í þeim safnast þessir mörgu, stöku dagar smám saman upp og taka sér bólfestu í formi einmanalegra og stundum óviðjafnanlegra minninga í vitund hennar. Þriðja bindið í þessu metnaðarfulla verkefni Solvej Balle hefst til dæmis á degi 1144. Hér fær Tara Selter félagsskap af Henry Dale, sem er einnig fastur í 18. nóvember. Áður, í fyrri bindum verksins, hefur hún verið ein í óreiðu tímans en þessari tilteknu „tímaslaufu“ er sem sé hægt að deila með öðrum. Í sameiningu rannsaka Tara og Henry þau tækifæri sem slaufan býður upp á, og þann möguleika að hún sameinist hinum venjulega tíma á ný. Hvað Töru áhrærir hefur það í för með sér sögulegar rannsóknir og heimspekilegar pælingar. Tara er meðal annars hugfangin af Rómaveldi, risi þess og hnignun, því að í sögu þess sér hún hliðstæðu við tilhneigingu vestrænnar menningar til hnignunar.
„Ég var lent í hinum stóra geymi mannkynssögunnar. Hann var fullur af hlutum. Þetta voru ekki frásagnir úr fortíðinni. Þetta var fortíðin þegar hún fékk frelsið og ráfaði gegnum aldirnar og lenti fyrir fótum okkar. Ef ég fór að fást við upphaf og endi, fléttur og mikil afrek, orsök og afleiðingu, sigurvegara og þá sem töpuðu, rakst ég á brúnina og komst ekki lengra. Ég hafði áhuga á skóm, skipum og vaxi til að innsigla bréf. Á byggingum, bindingsverkinu sem sneri út að veginum. Ég hafði ekki áhuga á lyktum stríðsins, heldur á hnöppunum á einkennisbúningum hermannanna.“ (53)
Verkið nær þannig tangarhaldi á lesandanum með því að láta sögumanninn, Töru Selter, vera niðurkomna á stað í mannkynssögunni þar sem tíminn safnast fyrir í hlutum og stöðum, já, þetta er frásögn í rúmi fremur en í tíma, án þess að unnt sé að útskýra hvers vegna og hvernig, og þannig lætur Solvej Balle lesandann endurupplifa (sam)tímann og þau sjónarmið sem etja kappi innan hans. Það er jú það sem miklar bókmenntir geta oft gert: þær kenna okkur að sjá heiminn og hvert annað upp á nýtt og með nýjum augum. Eða í það minnsta að sjá og skilja nútíðina sem eitthvað sem við eigum sameiginlegt, á meðan við lifum okkar aðskildu lífum hvert í sínu lagi. Þannig hugsar maður þegar ljóðskáldið Henrik Nordbrandt skrifar að það séu sextán mánuðir í árinu, og lætur ljóðið enda á „nóvember, nóvember, nóvember, nóvember.“ Þannig má líka upplifa þá hrikalegu sýn á heiminn sem við fáum í gegnum hið manngerða og ofurviðkvæma skrímsli í Frankenstein eftir Mary Shelley.
Eins og danskur gagnrýnandi orðaði það svo fallega, þá samanstendur prósaskáldskapur Solvej Balle af hlustandi texta. „Að lesa hana […] er eins og sjálft tungumálið sýni manni blíðuhót.“ Og þó að sagt sé að verkefnið hafi átt upphaf sitt í óljósum hugmyndum þegar á 10. áratug tuttugustu aldar, og höfundurinn hafi varið yfir tveimur áratugum í að úthugsa þetta skáldsagnaverkefni, þá birtist það okkur ekki sem out of joint árið 2022. Þvert á móti, eftir þetta tímabil sem einkennst hefur af óraunverulegu rofi á sameiginlegu lífi okkar og lokunum í samfélaginu, þar sem nýir hliðstæðir heimar, óþekktir fram að þessu, hafa orðið til. Með Om udregning af rumfang hefur Solvej Balle skapað sannkallað meistaraverk sem telja má til bókmenntagreinarinnar spáskáldskapar (e. speculative fiction).
Solvej Balle er fædd árið 1962. Fyrsta bók hennar, Lyrefugl („Lýrufugl“, hefur ekki komið út á íslensku), kom út árið 1986. Á tíunda áratugnum skrifaði hún eitt mest lofaða verk danskra bókmennta, Ifølge loven (1993 („Lögum samkvæmt“, hefur ekki komið út á íslensku)). Síðan þá hefur hún þó aðeins sent frá sér fáeinar bækur: Det umuliges kunst (2005 („List hins ómögulega“, hefur ekki komið út á íslensku)), þar sem hún setti fram kenningar um myndlist, pólitísku endurminningaesseyjuna Frydendal og andre gidsler (2008 („Frydendal og fleiri gíslar“, hefur ekki komið út á íslensku) og tvö stutt prósaverk, Hvis („Ef“, hefur ekki komið út á íslensku) og Så („Svo“, hefur ekki komið út á íslensku) sem komu út samtímis árið 2013. Með Om udregning af rumfang stígur Solvej Balle aftur fram á sjónarsviðið svo að eftir verður tekið, ekki bara á svið danskra eða norrænna heldur einnig evrópskra fagurbókmennta.