Steinar Bragi

Steinar Bragi, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Steinar Bragi 

Ljósmyndari
Kristin Eiriksdottir
Steinar Bragi Truflunin. Skáldsaga. Forlagið, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Skáldsagan Truflunin fjallar um lítið svæði sem er öðruvísi en umheimurinn. Það getur að mati yfirvalda ekki gengið. Þetta er framtíðarsaga og söguformið er notað til þess að brjóta þverstæður samtímans til mergjar.

Hið truflaða svæði nær yfir þær götur í miðbæ Reykjavíkur sem bera nöfn hinna fornu guða ásatrúarmanna, Óðinsgata skiptir þar að sjálfsögðu miklu máli, einnig Óðinstorg og Óðinsvé. Utan við hið truflaða svæði er umheimurinn og hann er fjölþjóðlegur, þar skiptir þjóðerni litlu sem engu. Aðalpersónan hefur unnið sér harðsóttan rétt til þess að fara gegnum leyndardómsfullan hjúp eða ormagöng og inn á hið truflaða svæði. Erindi aðalpersónunnar inn í Truflunina er að leita skýringa á því sem á seyði er. Því fer þó fjarri að allt sé sem sýnist í þeirri sendiför. Veraldir í þessari sögu eru lengst af tvær, umheimurinn og truflunin. Í þeim líður tíminn ekki á sama hraða en flest annað er óljóst. Truflunin er samkvæmt textanum hola í umheiminum sem opnaðist inn í söguna 5. mars 2030.

Hið eiginlega viðfangsefni þessarar bókar er að í tölvuvæddum heimi hefur vitund okkar verið teygð yfir allan umheiminn, tengd alnetinu og þannig séð erum við öll að breytast í örlítið mismunandi útgáfur af eins konar samvitund. Sérkenni okkar sópast burtu með straumi tækninnar. Hver treystir sér til að staðhæfa að hann sé einstakur eða frábrugðinn öðrum? Samt hefur einstaklingshyggja ef til vill aldrei risið jafn hátt og hún gerir nú. Þverstæður nútímans láta ekki að sér hæða.

Spurningarnar sem vakna við lestur þessarar bókar eru viðamiklar meginspurningar, meðal annars um vísindasiðgæðið og nútímann. Hér eru nokkur slík dæmi: Sumar þeirra eru vel kunnar: hvenær verður gervigreindin svo öflug að hún verði ekki skilin frá greind mannsins. Ef eftirlíkingin af greind mannsins verður alfullkomin, verður hún þá ekki jafnframt fullkomnari en sú greind sem hver og einn hefur fengið úthlutað? Í kvikmyndum og bókmenntum er oft lýst átökum milli manna annars vegar og ofurtölva/sæborga eða geimvera hins vegar. Þeirri viðureign lýkur yfirleitt með naumum sigri mannsandans sem byggist oftast á hæfileika mannsins til þess að elska og trúa - en hver segir að ekki sé hægt að læra það líka?

Það er svolítið fyndið að þessi gamli bæjarhluti í Reykjavík skuli fá það hlutverk í bókinni að verða tímaskekkjan og truflunin í veröldinni. Kannski höfum við Íslendingar verið tímaskekkja og truflun lengur en okkur grunar.

Steinar Bragi Guðmundsson (f. 1975) hefur gefið út margar bækur og telst til virtustu höfunda Íslands.

„Hvernig lýsir maður því þegar manneskja fer úr einum heimi yfir í annan, sem er alveg eins, og það er engin leið til baka?“ Þetta sagði rithöfundurinn Steinar Bragi um skáldsögu sína, Truflunina.