Ursula Andkjær Olsen

Ursula Andkjær Olsen

Ursula Andkjær Olsen

Photographer
Rolando Diaz
Ursula Andkjær Olsen: Mit smykkeskrin. Ljóðabók. Gyldendal, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Ursula Andkjær Olsen (f. 1970) er eftirtektarverð rödd í dönskum bókmenntum síðustu ára. Í verkum sínum fléttar hún saman margvísleg stef og þætti svo að minnir á uppbyggingu sígildra tónsmíða. Í margradda og stefnuföstum verkum hennar er tungumálinu gefið líf og öllu ljáð merking gegnum þau tengsl sem til staðar eru hverju sinni, líkt og í heiminum sem lýst er. Eftir að frumraun Ursulu Andkjær Olsen kom út árið 2000 varð hún áberandi í hinni nýju kynslóð skálda sem beindu list sinni að umheiminum í auknum mæli með því að snerta á viðfangsefnum á borð við samfélag, kyn, líkama og pólitík. Hún hefur skrifað hátt á annan tug verka, einkum ljóðabækur og eina skáldsögu auk verka sem sameina ólíkar bókmenntagreinar, og hefur alla tíð unnið þvert á mismunandi listgreinar.

Í Mit smykkeskrin („Skartgripaskrínið mitt“, hefur ekki komið út á íslensku) opnast ljóðin smám saman og mynda aðdáunarvert net þráða sín á milli. Höfundur fæst áfram við umfjöllunarefni tengd móðurhlutverki og missi, sem hafa verið miðlæg í verkum hennar allt frá útkomu Det 3. årtusindes hjerte (2012), en það nýstárlega er að nú eru þessi viðfangsefni tengd tíðahvörfum: „ég er móðir / sem gerir engan að systkini / sem mun ekki gera neinn að systkini“. Breytingaskeiðið hefur hingað til ekki verið áberandi viðfangsefni í norrænum bókmenntum og Ursula Andkjær Olsen nálgast það á frumlegan og ljóðrænan hátt með því að sýna áhrifin á líkamlega og andlega líðan, auk þess að setja það í samhengi stærra hringrásarferlis: „ég má prófa að deyja / því ég er dáin / ég má það / það er gjöf / það er nokkuð sem verður ekki að skuld / það er nokkuð sem enginn getur tekið frá mér // hvörfin frá frjósemi að ófrjósemi / frá fullu tungli að nýju tungli / ég verð jómfrú aftur // ég verð stúlka / aftur“.

Í þessari hringrás er líkaminn tengdur öðrum líkömum, einnig náttúrunni og hinu alltumlykjandi hagkerfi. Ljóðin sýna hina líffræðilegu og tilfinningalegu hringrás lífsins, og það hvernig breytingaskeiðið er liður í þessu iðandi hagkerfi fólks sem tekur, skilar og gefur til baka.Þannig er víða lögð á það áhersla í bókinni að öll tengsl séu háð einhvers konar hagkerfi. „Naflastrengurinn var fyrsta boðleið hagkerfisins / skiptist í munn og munnstykki / á sitthvorum líkamanum“. Í Mit smykkeskrin kemur það enn skýrar fram en í fyrri ljóðabókum Andkjær Olsen hvernig rökfræði hagkerfisins gegnsýrir alla tilveru okkar.

Hinir sjö hlutar ljóðabókarinnar eru aðgreindir með ljósmyndaverkum eftir Sophiu Kalkau og bera nöfn á borð við Bankahólf  og Skartgripaskrínið mitt, og líkt og ílátið rauða á forsíðu bókarinnar vísa þessir titlar til legsins. Í bókinni er legið eins og holur geymir eða leið til að færa einn líkama yfir í annan, fram að hinum sársaukafulla missi frjóseminnar. Dauðinn er áberandi í ljóðunum, auk vísana í ævintýri og goðsagnir. Hver hluti bókarinnar inniheldur skáletrað ljóð með frásögn og þar birtast bæði barn og látin móðir ljóðmælandans í formi radda og nærveru, en einnig sem söknuður, og það er liður í hinni miklu hringrás þar sem allt tengist: „að eiga / stað í sjálfri sér / minninguna um að hafa verið / að minnsta kosti tvær / samhangandi lífverur / önnur inni í hinni / sem man dvölina inni í þeirri þriðju / man kannski // siðmenning keðja / með minnst tveimur hlekkjum / enginn er einn“.

Með keðjum og uppbyggingu af þessu tagi leiðir Ursula Andkjær Olsen okkur fyrir sjónir tengingar milli ýmiss konar fyrirbæra sem við hefðum annars ekki orðið vör við. Hún beinir athygli okkar að því að líkami okkar er hluti af stærri heild, að á nánast goðsagnakenndan hátt erum við hluti af alheimi og skiptumst í sífellu á hlutum og tilfinningum við aðrar manneskjur. Á sinn svimandi hátt rúmar Mit smykkeskrin hreinlega allt og vekur okkur til umhugsunar og skynjunar um allt í þessum heimi. Úr markvissum og heimsfræðilegum skrifum Ursulu Andkjær Olsen liggur þráður til ljóðabókarinnar det, stórvirkis Inger Christensen frá 1969, sem einnig er vísað til á fyrstu síðu Mit smykkeskrin: „það var allt og sumt / var það allt og sumt // svo erum við í strætó“.

Allan sinn ritferil hefur Ursula Andkjær Olsen gert tilraunir með nýstárleg form og uppsetningu texta, auk þess sem dekkri tónar hafa smám saman læðst inn í verk hennar. Hún hefur haft mikil áhrif á yngri kynslóðir skálda og stendur sem lýsandi viti í danskri ljóðlist. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín gegnum árin og var meðal annars tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2009.