Ylva Karlsson og Sara Lundberg (myndskr.)

Ylva Karlsson og Sara Lundberg
Photographer
Kajsa Göransson
Ylva Karlsson og Sara Lundberg (myndskr.): Jag och alla. Myndabók, Rabén & Sjögren, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Hver hefur ekki velt því fyrir sér hvernig það væri að vera einhver annar? Í Jag och alla („Ég og allir“, hefur ekki komið út á íslensku) er þessari tilvistarlegu spurningu varpað fram út frá sjónarhóli barnsins. Með fallegum teikningum og texta er brugðið upp svipmyndum af smáum og stórum heimum sem snerta lesandann.

Bókin er byggð upp líkt og boðhlaup; á jaðri hverrar opnu er barn, sem sést þó ekki alltaf greinilega, en verður í aðalhlutverki á næstu opnu. Á sama hátt hefur tilvera okkar snertifleti við tilveru annarra og tengist henni í þéttriðnu neti.

Á ferðalaginu mæta bæði eldri og yngri lesendur heiminum, ekki aðeins eins og hann er utan frá séð heldur einnig gegnum hið mikilfenglega innra líf sem finna má hjá ólíkum börnum með ólíka skapgerð og reynslu.

Texti Ylvu Karlsson er þrunginn samkennd og býður upp á sterka innlifun, bæði hvað snertir hversdagslega hluti og heilabrot um ráðgátur lífsins. Hún veigrar sér ekki við að takast á við vangaveltur barna um dauðann, hvort sem málið snýst um ömmu eða hvítan kött. Þess í stað sýnir hún dauðann sem hluta af því lífi sem öll bókin er óður til.

Myndir Söru Lundberg eru í góðu samræmi og samspili við textann og vekja lesendur til umhugsunar með geislandi en hljóðlátum hætti. Jafnframt standa myndirnar sjálfstætt og taka alveg hæfilega mikið pláss. Þær flæða fram og gefa textanum andrými en mynda um leið ótvíræða tengingu við hann. Hið gegnumgangandi litróf myndskreytinganna er ekki endilega lágstemmt, en stafar þó frá sér ró. Fljótandi vatnslitamyndir og skýrar penslastrokur í bland við harðar, beinar línur ljá myndunum líf og láta litina óma saman á hátt sem kemur myndunum nánast á hreyfingu. Þrátt fyrir það eru myndskreytingarnar á vissan hátt tvíræðar og óljósar og falla þannig að hinum heimspekilega tóni frásagnarinnnar; að mörkum ímyndunar og veruleika. Óljósir andlitsdrættir verða þrátt fyrir allt afar skýrir í þeim heimi sem myndskreytingar Lundberg og texti Karlsson bjóða lesendum að stíga inn í.

Að lokum hittum við aftur fyrir fyrsta barn sögunnar, svo að frásögnin virðist komin í hring – en síðan er keflið rétt áfram til lesandans með sögulokum sem bjóða enn frekari vangaveltum heim.