Leiðbeiningar: Árstíðabundin störf í Danmörku

Kraner på Århus havn

Ljósmyndari
Mikkel Jonck Schmidt/Unsplash
Ef þú hyggst dvelja í Danmörku í stuttan tíma til að vinna geturðu lesið um það hér hvað ber að hafa í huga varðandi atvinnuskilyrði, kennitölu, skattamál, almannatryggingar, heilbrigðiskerfið og margt fleira.

Þessi grein er ætluð þeim þeim sem hyggjast vinna í Danmörku munu ekki skrá sig í þjóðskrá og bera ekki fulla skattskyldu. Þetta á alla jafna við um það þegar fólk dvelur og vinnur í Danmörku skemur en í sex mánuði. Ef þú hyggst dveljast lengur í landinu geturðu nálgast viðeigandi upplýsingar í leiðbeiningum okkar um að flytja til Danmerkur og starfa þar.

Að finna árstíðabundið starf í Danmörku

Atvinnuleit í Danmörku

Um allt land eru vinnumiðlanir þar sem þú getur leitað að vinnu. Vinnumiðlanirnar eru einnig á netinu þar sem vefgáttin nefnist jobnet.dk.

Nordjobb: Árstíðabundin störf í Danmörku fyrir ungt fólk

Nordjobb er úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára sem langar til þess að vinna í öðru norrænu landi í nokkra mánuði. Nordjobb tengir ungt fólk við atvinnuveitendur á Norðurlöndum auk þess að aðstoða við að finna húsnæði og skipuleggja menningardagskrá í tengslum við dvölina.

Hvað þarf að hafa í huga áður en haldið er til Danmerkur til að vinna?

Dvalar- og atvinnuleyfi vegna árstíðabundins starfs í Danmörku

Norrænum ríkisborgurum er heimilt að flytjast búferlum til Danmerkur og starfa þar. Þú þarft hvorki vegabréfsáritun, atvinnuleyfi né dvalarleyfi.

Ef þú ert ekki norrænn ríkisborgari heldur ríkisborgari í ESB-landi, EES-landi eða Sviss er þér heimilt að dvelja í Danmörku í þrjá mánuði. Ef þú ert í atvinnuleit í Danmörku er þér heimilt að dveljast í landinu í allt að sex mánuði.

Ef þú óskar eftir því að starfa í Danmörku en ert ekki ríkisborgari á Norðurlöndum, í ESB-landi, EES-landi eða Sviss geturðu kynnt þér nánar möguleikana á vefnum nyidanmark.dk.

Skattskylda, skattkort og kennitala vegna árstíðabundins starfs í Danmörku

Ef þú ætlar að vinna í Danmörku þarftu skattkort og kennitölu (CPR-tölu) Þú getur sótt um það hjá Skattestyrelsen. Þú getur í fyrsta lagi sótt um skattkort og kennitölu einum mánuði áður en þú hefur störf í Danmörku.

Almannatryggingar vegna árstíðabundins starfs í Danmörku

Meginreglan er sú að einstaklingur er tryggður af almannatryggingum í því landi sem hann starfar í.

Aðild að almannatryggingum í tilteknu landi felur í sér að þú lýtur reglum þess lands í málum á borð við:

  • atvinnuleysistryggingar
  • lífeyrisgreiðslur
  • sjúkradagpeninga
  • barnabætur
  • heilbrigðisþjónustu
  • fæðingarorlofsgreiðslur
  • bætur vegna vinnuslyss

Nánar má lesa um þetta í greininni „Almannatryggingakerfi hvaða lands tilheyrir þú?“ Þar má einnig sjá hvaða yfirvöld er hægt að hafa samband við ef spurningar vakna.

Íbúðarhúsnæði í Danmörku

Upplýsingar um húsnæðisleit í Danmörku má finna í grein Info Norden, „Íbúðarhúsnæði í Danmörku“.

Tryggingar á meðan þú dvelst í Danmörku

Þú þarft að hafa samband við tryggingarfélagið þitt til að ganga úr skugga um þú sért með tryggingu á meðan þú dvelst í Danmörku.

Gæludýr til Danmerkur

Þegar ferðast er til Danmerkur með gæludýr þarf að huga að ýmsum reglum. Þær geta verið mismunandi eftir því frá hvaða landi er ferðast og hversu gamalt gæludýrið er. Reglurnar gilda hvort sem þú ert á leiðinni til Danmerkur í frí eða hyggst flytja þangað, ert að snúa aftur til Danmerkur eftir að hafa verið í fríi erlendis eða hefur keypt gæludýr erlendis og hyggst hafa það með heim til Danmerkur.

Sérstaklega þarf að gefa því gaum að ákveðnar hundategundir eru bannaðar í Danmörku og að allir hundaeigendur þurfa að vera með hundaábyrgðartryggingu. Þetta á einnig við þótt um stutta dvöl sé að ræða.

Gerðu yfirvöldum grein fyrir að þú vinnir í Danmörku

Þú þarft að gera skattayfirvöldum og almannatryggingum þess lands sem þú býrð í grein fyrir að þú munir dveljast og vinna í Danmörku um tíma.

Á meðan þú dvelst í Danmörku

Réttindi þín á dönskum vinnumarkaði

Work in Denmark hefur tekið saman yfirlit yfir réttindi þín á dönskum vinnumarkaði.

Sjúkratryggingakort ef þú heyrir undir danskar almannatryggingar

Ef þú býrð í öðru norrænu landi en starfar fyrir danskan vinnuveitanda í Danmörku nýturðu alla jafna danskra sjúkratrygginga. Það þýðir að þú eigir rétt til danskrar heilbrigðisþjónustu á sömu forsendum og einstaklingar sem búa í Danmörku. Sérstakt sjúkratryggingaskírteini er staðfesting þín á því. Þú átt rétt á að fá skírteinið útgefið hjá Udbetaling Danmark. Þú þarft að framvísa því í hvert sinn sem þú átt samskipti við heilbrigðiskerfið.

Annaðhvort getur verið litið á þig sem „landamærastarfsmann“ (grænsearbejder( eða „launamann“ (arbejdstager). Udbetaling Danmark ákveður það út frá því hvort þú ferðist aftur til heimilis þíns í öðru norrænu landi a.m.k. einu sinni í viku eður ei. Burtséð frá því hefurðu fullan aðgang að danskri heilbrigðisþjónustu en ef þú att fjölskyldu sem einnig á að sjúkratryggja skiptir það máli fyrir aðra fjölskyldumeðlimi hvort þú teljist landamærastarfsmaður eða launamaður.

Sérstakt sjúkratryggingakort gildir að hámarki í tvö ár. Hægt er að sækja um skírteinið á borger.dk og nota má sjálfsafgreiðsluna án þess að hafa MitID-auðkenni.

Fyrirtæki geta sótt um sérstakt sjúkratryggingakort fyrir starfsfólk sitt á vefnum virk.dk.

Nánari upplýsingar um sérstakt sjúkratryggingakort er að finna á vefnum borger.dk. Ef þú ert með spurningar geturðu haft samband við Udbetaling Danmark, International Sygesikring. Nánari upplýsingar um danska sjúkratryggingu eru á vefsíðunni borger.dk og á vefsvæði Styrelsen for Patientsikkerhed.

Atvinnuleysisbætur vegna árstíðabundins starfs í Danmörku

Ef þú starfar í Danmörku eru það í langflestum tilvikum danskar reglur um almannatryggingar sem eiga við um þig. Það þýðir að þú þarft að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð (a-kasse) til þess að ávinna þér tryggingarétt ef til atvinnumissis kemur.

Grunnskólar í Danmörku þegar dvalist er þar tímabundið

Í Danmörku er engin skólaskylda en öll börn á skólaaldri sem dvelja í Danmörku eiga rétt á að fá kennslu.

Hafðu samband við sveitarfélagið sem þú dvelur í til að fá nánari upplýsingar.

Bankaþjónusta í Danmörku þegar dvalist er þar tímabundið

Allir sem dveljast með löglegum hætti í Danmörku eða öðru landi innan ESB/EES eiga rétt á að stofna einfaldan innláns- og greiðslureikning í dönskum banka. Þetta á einnig við um notendur sem ekki hafa dvalarleyfi en ekki er hægt að vísa úr landi.

Öllum ber að vera með NemKonto-reikning

Allir íbúar Danmerkur þurfa að vera með svokallað „NemKonto". Það er venjulegur bankareikningur sem opinber yfirvöld og ákveðin fyrirtæki nota til þess að greiða þér peninga. Það geta verið barnabætur, ellilífeyrir, framfærslubætur frá hinu opinbera og ofgreiddur skattur. Hægt er að nota einfaldan greiðslu- eða innlánsreikning sem NemKonto. Þú þarft að upplýsa bankann þinn um hvaða reikning skuli nota sem NemKonto. Einnig er hægt að nota útlenskan bankareikning sem NemKonto.

Rafræn skilríki í Danmörku – MitID MitID

MitID eru rafræn skilríki sem hægt er að nota í samskiptum við hið opinbera í Danmörku og einnig við þjónustu á borð við netbanka og netverslanir. Í flestum tilvikum er hægt að fá MitID hjá borgaraþjónustunni.

Ef þú ert útlendingur eða býrð utan Danmerkur fer MitID fram á að þú hafir ávallt með þér vitni þar sem ef til vill eru ekki nægar upplýsingar um þig í CPR-kerfinu. Gættu þess að hafa öll nauðsynleg gögn meðferðis til borgaraþjónustunnar. Þetta er sérlega mikilvægt ef þú þarft á fá MitID sem þú getur notað til að fá aðgang að flestum sjálfsafgreiðsluþjónustum eða þarft að nota MitID í atvinnuskyni.

Erlendir bílar í Danmörku

Ef þú ert skráð(ur) í þjóðskrá í Danmörku og dvelst í landinu í innan við 185 daga á 12 mánaða tímabili geturðu ekið bíl með erlendum númeraplötum án þess að greiða skráningargjald í Danmörku.

Síma- og internetáskrift í Danmörku

Alla jafna þarf maður að vera í þjóðskrá í Danmörku til að kaupa síma- eða internetáskrift.

Að dvölinni í Danmörku lokinni

Gerðu yfirvöldum grein fyrir að þú hafir snúið heim

Þú þarft að gera skattayfirvöldum og almannatryggingum þess lands sem þú býrð í grein fyrir að þú dveljist og vinnir ekki lengur í Danmörku.

Skattframtal frá Skattestyrelsen í Danmörku

Á vorin berst þér skattframtal frá Skattestyrelsen. Þar kemur fram hvað þú hefur verið með í tekjur og frádrátt og hvað þú hefur greitt í skatt á undanförnu almanaksári.

Hægt er að nálgast framtalið á skat.dk. Þú þarft að ganga úr skugga um að upplýsingarnar séu réttar.

Hafirðu greitt of mikið í skatt verður mismunurinn greiddur inn á NemKonto-reikninginn þinn. Hafirðu greitt of lítið geturðu greitt það sem upp á vantar í gegnum skat.dk.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna