Aukinn áhugi á staðbundinni framleiðslu og endurnýjanlegum lausnum í kjölfar kreppunnar
Daglega berast skýrslur um áhrif kreppunnar á lýðheilsu, atvinnumál, heimsviðskipti og hagkerfi – og um leið erum við á kafi í umræðum um hvernig uppbyggingin eigi að vera.
Á að kynda undir hagkerfinu með ódýrri olíu? Eða eigum við að örva endurreisn með því að fjárfesta í umhverfisvænni tækni, kolefnishlutlausri orku og sjálfbærri matvælaframleiðslu.
Áhrifin verða jákvæð
Fyrir mánuði síðan var hópur sérfræðinga, fagfólks og vísindamanna með tengsl við lífhagkerfið spurður um hvernig áhrif faraldurinn myndi hafa á vöxt lífhagkerfisins í þeirra löndum. Lífhagkerfi snýst um að vinna afurðir úr jörðu, skógi og hafi á skilvirkari og sjálfbærari hátt en nú er gert – og um leið að skipta út jarðefnaeldsneyti og efniviði með lífrænum lausnum.
56 prósent svöruðu að áhrifin yrðu jákvæð.
Minni dreifikerfi draga úr hættu
Ástæðuna segja þau meðal annars vera að kreppan hafi sýnt fram á viðkvæmni alþjóðlegra dreifikerfa þegar landamæri eru lokuð. Sú reynsla mun gagnast staðbundinni framleiðslu, allt frá mat og orku til efnavöru og lyfja.
„Hin umfangsmikla lokun í heiminum hefur virkilega reynt á dreifikerfin. Fyrirtæki sem hafa fundið fyrir flöskuhálsum í kjölfar faraldursins munu tryggja aðgang að vörum. Þau fá aukinn áhuga á vörum sem eru framleiddar nær til þess að minnka áhyggjur af alþjóðlegum virðiskeðjum,“ segir Alberto Giacometti, ungur vísindamaður á sviði byggðaþróunar hjá Nordregio í Stokkhólmi og einn þeirra sem tók þátt í könnuninni.
Svæðisbundin vörumerki styrkjast
Gert er ráð fyrir að mestu vaxtarmöguleikarnir séu fyrir hendi á sviði staðbundinna vörumerkja í matvælaframleiðslu en einnig í verðmætum heilsuvörum sem vinna má úr staðbundnum lífrænum auðlindum.
Fyrirtæki sem vinna heilsuvörur úr slógi, orku úr heimilissorpi, dýrafóður úr tangi og prótín úr frárennsli frá mjólkurbúum eru dæmi um hvernig lífhagkerfið getur hækkað vinnslustig og aukið virði hráefnisins.
Traust störf og öruggur matur
Faraldurinn undirstrikar einnig félagslegar hliðar lífhagkerfisins að mati margra þeirra sem svöruðu könnuninni. Þetta snýst um leit mannsins að öruggum mat og traustum störfum þegar er kreppa um allan heim.
„Faraldurinn hefur virkilega leitt til þess að fólk veltir því fyrir sér hvað skiptir máli í lífinu og hvar það vill eiga heima. Hér í Lettlandi þar sem ég á heima hefur fólk flutt út á land og komist að því að hér er hægt að fá vinnu. Ég er viss um að þetta mun gagnast fyrirtækjum á landsbyggðinni,“ segir Joanna Storie sem rannsakar landsbyggðarþróun í Estonian University of Life Science.
Þegar svarendur voru beðnir um að raða kostunum við vöxt lífhagkerfisins á kvarða frá 1 upp í 5, raðaðist félagslegt mikilvægi efst (3,9) - rétt fyrir ofan umhverfislegt (3,8) og efnahagslegt (3,7) mikilvægi.
Ákveðið pólitískt loforð um sjálfbærni
Margir svarendur í könnuninni líta svo á að faraldurinn hafi styrkt þá sjálfbærnitilhneigingu sem þegar var fyrir hendi, ekki síst pólitískt.
Framkvæmdastjórn ESB hefur lofað að „European Green Deal“ verði drifkraftur enduruppbyggingar efnahags í Evrópu, sem þýðir fjárfestingar í endurnýjanlegri orku, endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir samgöngugeirann og sjálfbær matvælaframleiðsla.
Svarendurnir í könnuninni sjá tækifæri varðandi aukinn stuðning við lífhagkerfið, bæði gegnum lagasetningu og gegnum meðvitað val neytenda.
Staðreyndir:
- Könnunin er hluti af stærri rannsókn á leiðandi þáttum á sviði lífhagkerfisins á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Rannsóknin var unnin af Nordic Sustainability samkvæmt pöntun frá Norrænu ráðherranefndinni og verður gefin út haustið 2020.
- 2018 tók norrænt samstarf upp stefnumótandi áætlun fyrir lífhagkerfið á Norðurlöndum með það að markmiði að auðvelda umskipti frá hefðbundnum landbúnaði, skógrækt og veiðum til tæknilegs og þróaðs iðnaðar og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
- 122 sérfræðingar og fagfólk á sviði lífhagkerfis tóku þátt í könnuninni. Sum þeirra hafa dýpkað svör sín í viðtölum sem tekin voru í framhaldinu. Svarendurnir eru frá 13 löndum á Eystrasaltssvæðinu og Norður-Atlantshafssvæðinu.