Dómsmálaráðherrarnir koma á fót vinnuhópi gegn mansali

30.06.22 | Fréttir
Justitieministrarnas möte i Finnskogen i Norge
Photographer
Justitie- och beredskapsdepartementet i Norge

Frá fundinum í Finnskogen: Mattias Tesfaye, Danmörku, Bárður á Steig Nielsen, Færeyjum, Paula Lehtomäki, Norrænu ráðherranefndinni, og í fremri röð Anna-Maja Henriksson, Finnlandi, Emilie Engel Mehr, Noregi, Jón Gunnarsson, Íslandi, og Morgan Johansson, Svíþjóð.

Komið verður á fót norrænum vinnuhópi gegn mansali samkvæmt ákvörðun fundar norrænna dómsmálaráðherra sem haldinn var í Finnskogen í Noregi. Baráttan gegn mansali hefur lengi verið á dagskrá Norrænu ráðherranefndarinnar og löggjafarsviðs hennar en nú er markmiðið að þetta brýna málefni hafi meiri forgang en áður.

„Mansal felur í sér alvarlega misnotkun á fólki í viðkvæmri stöðu. Nauðsynlegt er að tryggja öryggi þessa hóps, ekki síst nú þegar flóttafólk frá Úkraínu streymir til Noregs og annarra Evrópulanda. Þess vegna er ég mjög ánægð með að hafa haft tækifæri til að hitta hina norrænu dómsmálaráðherrana og ræða þetta málefni,“ segir Emelie Enger Mehl, dómsmálaráðherra Noregs.

Noregur fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2022.

„Samstarf á sviði dómsmála hefur alltaf verið mikilvægur þáttur í norrænu samstarfi. Það getur skipt sköpum að löndin starfi náið saman og standi sameiginlega að lausn mála þvert á norrænu landamærin,“ segir ráðherrann.

Hlutverk vinnuhópsins, sem skipaður er sérfræðingum landanna á þessu sviði, er að miðla góðum dæmum og reynslu úr starfi gegn mansali, skiptast reglulega á upplýsingum og skipuleggja samstarf yfir landamæri, meðal annars með því að samhæfa aðgerðir landanna gegn mansali. Hópnum er einnig ætlað að styðja aðgerðaaðila á Norðurlöndum og samstarf þeirra. Á þann hátt getur vinnuhópurinn haft frumkvæði að viðeigandi aðgerðum á norrænum vettvangi, einkum með það fyrir augum að efla aðgerðir gegn mansali.

Ákvörðunin var byggð á tillögum frá málþingi um bestu starfsvenjur í aðgerðum gegn mansali á Norðurlöndum en það var haldið í formennskutíð Finna í Helsinki í fyrrahaust.

Á fundi norrænu dómsmálaráðherranna var einnig rætt um netglæpi, skipulagða glæpastarfsemi og kynferðisglæpi.