Eflt samstarf um stafræna þróun

Nýja ráðherranefndin mun starfa þverfaglega að þróun stafræns innri markaðar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, í samræmi við yfirlýsingu norrænu og baltnesku ráðherranna sem undirrituð var á ráðstefnunni Digital North í Ósló í maí s.l.
Lesið yfirlýsinguna hér:
„Árangur ráðherranefndarinnar ræðst af því hvort okkur tekst að skilgreina sameiginlegar grunnreglur um frjálsan flutning gagna,“ segir Frank Bakke-Jensen, samstarfsráðherra Noregs en hann stýrði fundinum. Ráðherrann undirstrikar að netöryggi og persónuvernd almennings séu grundvöllur alls starfs að stafrænni þróun.
Samstarf á sviði stafvæðingar nýtur öflugs stuðnings forsætisráðherra Norðurlandanna, en á fundi þeirra 30. maí s.l. lýstu þeir sig fylgjandi hugmyndinni um að setja á laggirnar tímabundna ráðherranefnd í þessu skyni.
Á undanförnum árum hefur verið unnið að nútímavæðingu innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Umbæturnar eiga meðal annars að hleypa þrótti og sveigjanleika í starfið og auka pólitískt vægi þess. „Samstarf um stafræna þróun og tímabundin ráðherranefnd þar að lútandi eru í fullu samræmi við umrædd markmið,“ segir Frank Bakke-Jensen.
Í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á þessu ári er einni milljón danskra króna varið í undirbúning á markvissum samstarfsverkefnum sem tengjast markmiðinu um stafrænan innri markað. Á tímabilinu 2018–2020 er tryggt fjármagn til að ná settu markmiði.