Eflt samstarf um stafræna þróun

22.06.17 | Fréttir
Samarbetsministrarna i Tromsø, Juni 2017
Ljósmyndari
Mary Gestrin/norden.org
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin verða að vinna betur saman að því að nýta tækifæri stafrænnar tækni. Breitt og sveigjanlegt samstarf landanna og samanburður á reynslu þeirra af stafrænum umskiptum er til hagsbóta fyrir almenning, fyrirtæki og opinbera stjórnsýslu á svæðinu. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna ákváðu á fundi sínum á Sommarøy í Noregi 20. júní að tímabundin ráðherranefnd, MR-Digital, skyldi starfa á árunum 2018–2020. Hlutverk ráðherranefndarinnar verður að leiða og samræma samstarf landanna á sviði stafrænnar þróunar.

Nýja ráðherranefndin mun starfa þverfaglega að þróun stafræns innri markaðar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, í samræmi við yfirlýsingu norrænu og baltnesku ráðherranna sem undirrituð var á ráðstefnunni Digital North í Ósló í maí s.l. 

Lesið yfirlýsinguna hér:

„Árangur ráðherranefndarinnar ræðst af því hvort okkur tekst að skilgreina sameiginlegar grunnreglur um frjálsan flutning gagna,“ segir Frank Bakke-Jensen, samstarfsráðherra Noregs en hann stýrði fundinum. Ráðherrann undirstrikar að netöryggi og persónuvernd almennings séu grundvöllur alls starfs að stafrænni þróun.

Samstarf á sviði stafvæðingar nýtur öflugs stuðnings forsætisráðherra Norðurlandanna, en á fundi þeirra 30. maí s.l. lýstu þeir sig fylgjandi hugmyndinni um að setja á laggirnar tímabundna ráðherranefnd í þessu skyni.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að nútímavæðingu innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Umbæturnar eiga meðal annars að hleypa þrótti og sveigjanleika í starfið og auka pólitískt vægi þess.
„Samstarf um stafræna þróun og tímabundin ráðherranefnd þar að lútandi eru í fullu samræmi við umrædd markmið,“ segir Frank Bakke-Jensen.

Í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á þessu ári er einni milljón danskra króna varið í undirbúning á markvissum samstarfsverkefnum sem tengjast markmiðinu um stafrænan innri markað. Á tímabilinu 2018–2020 er tryggt fjármagn til að ná settu markmiði.