Er menningarlíf Norðurlanda opið öllum?

30.01.18 | Fréttir
Vem får vara med? Nordisk kulturpolitisk dag i Stockholm
Photographer
Hedvig Franzén-Brunius
Við verðum að standa saman vörð um listrænt frelsi. Öflugt lýðræði tryggir að einnig minnihlutahópar fái notið sín. Alice Bah Kuhnke, menningar- og lýðræðisráðherra Svíþjóðar, lét þessi orð falla þegar hún setti norræna ráðstefnu um menningarstefnu, „Vem får vara med?“ (Hver má vera með?), í Stokkhólmi á mánudaginn.

Ráðstefnuna sóttu um 400 manns; aðilar sem taka ákvarðanir, fræðimenn og listafólk hvaðanæva frá Norðurlöndum. Umræðan spannst út frá þremur nýjum skýrslum og fjallaði um aðlögun og aðgengi allra að menningargeiranum á Norðurlöndum. Ráðstefnan var þáttur í formennskuáætlun Svía í Norrænu ráðherranefndinni 2018 og vakti sænski menningar- og lýðræðisráðherrann, Alice Bah Kuhnke, athygli á mikilvægi norræns samstarfs:

„Ég legg afar mikla áherslu á að skapa náin tengsl við norræn starfssystkin mín í þeim tilgangi að nýta menninguna til að skapa samfélag fyrir alla.“  

Ekki allir njóta sömu tækifæra

Niðurstöður benda til þess að fjölbreytileika skorti hjá ríkisreknum menningarstofnunum. Starfsfólki af erlendum uppruna hefur ekki fjölgað í takt við samsetningu íbúanna almennt.

„Ástæða er til að kanna hvað er því til fyrirstöðu að þeim fjölgi,“ segir Erik Peurell, skýrslugjafi hjá Kulturanalys Norden, en á ráðstefnunni var rætt um hvernig staðið er að ráðningu starfsfólks og kallað eftir nýjum hugmyndum.

En mikill munur er á hinum ýmsu sviðum. Í hljómsveitum er hátt hlutfall tónlistarfólks af erlendum uppruna miðað við safnageirann. 

Flestar konur yfirmenn á Íslandi

Kynjahlutfall starfsfólks er jafnara hjá ríkisreknum menningarstofnunum á Norðurlöndum þrátt fyrir að töluverður munur sé á tækifærum kynjanna til valda og áhrifa.

Ísland er eina landið þar sem líklegra er að kona en karl hreppi yfirmannsstöðu. Þar er hlutfall kvenna í yfirmannastöðum 75%. Sambærileg tala í Danmörku er 42%.

Ríkisreknar menningarstofnanir eru í fararbroddi miðað við vinnumarkaðinn almennt. Á Íslandi er hlutfall kvenna í yfirmannastöðum 38% en í Danmörku 26%.

Metoo er leiðin til breytinga

„Tölfræðin sýnir að sumir hellast aftur úr og að við verðum að vinna betur að þessum málum á Norðurlöndum. Metoo markar samfélagsbreytingar og á að vera okkur hvatning til að takast á við viðfangsefni dagsins í dag sem er jafnrétti, jöfnuður og aðlögun,“ sagði Mikael Höysti, skrifstofustjóri menningarmála hjá Norrænu ráðherranefndinni, þegar hann sleit ráðstefnunni.

Þrátt fyrir að stór mál séu enn óleyst benda skýrslurnar á leiðir til umbóta. Niels Righolt, framkvæmdastjóri „Center for Kunst & Interkultur“ í Kaupmannahöfn, segir:

„Ólíkt því sem áður var þá höfum við núna tölfræðilegan grunn sem varpar ljósi á sviðið.“

Karolina Windell, yfirmaður Kulturanalys Norden, telur einnig mikilvægt að fylgjast reglulega með atriðum sem varða jafnrétti og fjölbreytileika í norrænum menningargeira:

„Ef við eigum að öðlast skilning á því hvernig menningarlífið ýmist hleypir fólki að eða lokar það úti þurfum við traustan þekkingargrunn. Eins er mikilvægt að við miðlum þekkingunni áfram. Norræni menningarstefnudagurinn er vettvangur fyrir þekkingarmiðlun og samræðu sem eykur skilning og leiðir til aðgerða.“

 

Kulturanalys Norden og Norsk kulturråd stóðu að ráðstefnunni „Vem får vara med?“, en hún fór fram í Stokkhólmi 29. janúar 2018. Sjá dagskrá (kulturanalysnorden.se)

Skýrslur sem hægt er að hala niður