Jens Mattsson og Jenny Lucander hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

27.10.20 | Fréttir
Jens Mattsson och Jenny Lucander
Photographer
Nordisk kulturkontakt/Seppo Samuli

Jens Mattsson og Jenny Lucander, sem hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020, fengu verðlaunagripinn Norðurljós afhentan við litla athöfn hjá Norrænu menningargáttinni í Helsingfors.

Myndabókin „Vi är lajon!“ eftir sænska rithöfundinn Jens Mattsson og finnska myndskreytinn Jenny Lucander hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020. Jens Mattsson og Jenny Lucander hlutu verðlaunin fyrir verk sem stendur staðfastlega með barninu og þar sem sjónarhorn barnsins skín í gegn í bæði texta og myndskreytingum.

Verðlaunin voru afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á stafrænni verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020 á þriðjudagskvöld. COVID-19 kom í veg fyrir afhendingu verðlaunanna á Íslandi og þess í stað voru handhafar verðlaunanna fimm kynntir á öðruvísi verðlaunahátíð á netinu.

Rökstuðningur dómnefndar

Verðlaunabókin í ár stendur staðfastlega með barninu og sjónarhorn barnsins skín í gegn í bæði texta og myndskreytingum. Leikurinn hefur heilunarmátt þegar hið þungbærasta af öllu dynur á: lítið barn veikist af banvænum sjúkdómi. Þykjustu-hitabeltisgresja með líflegri, rauðgulri litadýrð hefur innreið sína í dauflegan heim sjúkrahússins. Fjörlegur leikurinn rúmar alla þá depurð og áhyggjur sem sjúkdómurinn hefur leyst úr læðingi. Skrautleg smáatriði og litagleði í myndskreytingum bókarinnar eiga í kotrosknu samtali við þá norrænu myndabókahefð sem við þekkjum úr verkum Ingrid Vang Nyman og Tove Jansson, en tjáningarmátinn er þó einstakur og þrunginn frumleika í sjónarhorni, aðferð, litavali og persónulýsingum. Textinn styður við myndirnar með stílhreinum hætti og áleitin frásögnin í fyrstu persónu dregur dám af ýkjukenndum leiknum. Lýsingarnar á umhyggju foreldranna og örvæntingu geyma hina sáru og kyrrlátu þætti verksins. Með bræðraástinni og hugrekkinu sem einkennir sögulokin er ýjað að því að nýtt Nangijala fyrirfinnist. Vi är lajon! („Við erum læón!“) er heillandi verk fyrir lesendur á öllum aldri sem ber vitni um norrænt samstarf af bestu gerð.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Hver verðlaun nema 350 þúsundum danskra króna og eru veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.