Nordic Talks í úrslitum Danish Design Award

27.04.22 | Fréttir
Danish Design Awards 2022 nordic talks
Ljósmyndari
norden.org
Við erum stolt af að greina frá því að Nordic Talks er komið í úrslit í Danish Design Award í ár í flokknum „Message Understood“.

Í tengslum við Framtíðarsýn okkar 2030, þar sem markmiðið er að vinna að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030, hefur Nordic Talks haft það að markmiði undanfarin tvö ár að efna til umræðna um mikilvæg vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir. Þáttaröðin er vinsæl og hönnuð með það fyrir augum að veita innblástur um það hvernig við getum gert miklar eða litlar breytingar á lífinu til þess að ná sjálfbærnimarkmiðunum. Bæði er um beina viðburði og hlaðvarpsþætti að ræða og leitast er við að koma á framfæri mikilvægum boðskap með einföldum hætti en með fagurfræði að leiðarljósi.

Því erum við stolt af að geta greint frá því að Nordic Talks sé í úrslitum Danish Design Awards í ár í undirflokknum „Message Understood“. Við erum þakklát fyrir að fá viðurkenningu þeirra sem fremst standa í hönnunarheiminum á einstakri nálgun okkar á því hvernig best er að fara að því að tryggja sjálfbærari framtíð.

Það er svo sannarlega góð hugmynd að takast á við mikilvæg málefni í gegnum ferska og nútímalega hönnun sem næstu kynslóðir geta tengt við og stendur fyrir Norðurlönd í heiminum, ekki gagnvart honum.

Dómnefnd Danish Design Awards 2022

Stoltur og glaður

Dómnefndin hefur meðal annars þetta að segja um Nordic Talks: „Það er svo sannarlega góð hugmynd að takast á við mikilvæg málefni í gegnum ferska og nútímalega hönnun sem næstu kynslóðir geta tengt við og stendur fyrir Norðurlönd í heiminum, ekki gagnvart honum. Samspilið við Norðurlandabúa sem búsettir eru utan Norðurlanda er áhugavert. Þar getur hugmyndin virkilega náð flugi.“

Verkefnisstjórinn Tobias Grut segist bæði stoltur og ánægður með að hönnunin og hugmyndafræðin á bak við Nordic Talks hafi hlotið viðurkenningu Danish Design Awards. Hann heldur áfram: „Í ljósi þess að kynningarverkefnið sem Nordic Talks heyrir undir hefur það að markmiði að efla mikilvægar umræður þvert á landamæri hefur það alltaf skipt okkur máli að Nordic Talks yrði vettvangur sem öll ættu auðvelt með að nota, óháð aldri og búsetu. Enn mikilvægara er að okkar mati að sýna fram á að ekki sé aðeins um eina rétta leið til að taka fleiri sjálfbærar ákvarðanir. Við getum öll lagt okkar af mörkum en í öllu upplýsinga- og skýrsluflóðinu getur stundum reynst erfitt að vita hvar maður eigi að byrja. Þar kemur notandavænn en listrænn vettvangur að gagni.“

Enn mikilvægara er að okkar mati að sýna fram á að ekki sé aðeins um eina rétta leið til að taka fleiri sjálfbærar ákvarðanir. Í öllu upplýsinga- og skýrsluflóðinu getur stundum reynst erfitt að vita hvar maður eigi að byrja. Þar kemur notandavænn en listrænn vettvangur að gagni.

Tobias Grut, verkefnisstjóri

Peoples Choice Award

Tilkynnt verður um sigurvegara í Danish Design Awards þann 9. júní. Þangað til, munið að kjósa Nordic Talks í Peoples Choice Awards á eftirfarandi hlekk:

Við viljum koma á framfæri miklu þakklæti til þeirra sem hafa unnið að Nordic Talks með okkur undanfarin ár; 1508, Lead Agency, The Lake Radio og Afton Halloran.