Norðurlönd geta haft mikinn hag af sterkara samstarfi á sviði viðskipta

03.05.22 | Fréttir
Gränshinderrådets ordförande 2022, Vibeke Hammer Madsen, och Kommerskollegiums generaldirektör Anders Ahnlid i Oslo.
Photographer
Matts Lindqvist / Norden.org

Vibeke Hammer Madsen, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins á árinu 2022, og Anders Ahnlid, framkvæmdastjóri utanríkisviðskiptastofnunar Svíþjóðar, Kommerskollegium.

Góð tækifæri eru til staðar fyrir norrænu löndin að efla samstarf á sviði viðskipta. Það kemur fram í nýútkominni skýrslu á vegum utanríkisviðskiptastofnunar Svíþjóðar, Kommerskollegium, sem nýlega var kynnt fyrir norræna Stjórnsýsluhindranaráðinu.

Í skýrslunni eru settar fram tillögur á fimm sviðum þar sem efla mætti samstarfið. Um er að ræða stöðlun, gagnkvæma viðurkenningu á vörum, aukið samstarf í kringum þjónustutilskipanir ESB og innleiðingu ESB-tilskipana ásamt betri samhæfingu norrænu Solvit-miðstöðvanna, þjónustu sem aðstoðar fyrirtækjum og einstaklingum að gæta réttar síns á innri markaði ESB.

Til nokkurs er að vinna fyrir norrænu löndin að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi viðskipta og auka samvinnu á því sviði að mati Anders Ahnlid, framkvæmdastjóra Kommerskollegium.

„Nítján prósent af öllum útfluttum vörum Norðurlandanna eru áfram innan Norðurlanda. Það þýðir að smávægilegar breytingar í viðskiptageiranum geta skilað miklum árangri.“

Öflug samstarfsnet mikilvæg

Anders Ahnlid leggur mikla áherslu á mikilvægi norrænna samstarfsneta sem eru að hans mati ekki eins öflug nú og áður.

„Mikilvægasti boðskapurinn í skýrslunni er að við þurfum að koma á fót samstarfsneti norrænna embættismanna sem starfa á þeim sviðum sem eflt geta norræna markaðinn. Ef við ætlum okkur að ná framförum þurfum við að leggja meiri áherslu á viðskiptasambönd í norrænu samstarfi, bæði á vettvangi stjórnmálanna og embættismanna.“

Hvers vegna er mikilvægt að innleiða tillögurnar í skýrslu Kommerskollegium?

„Stöðugleiki ríkir ekki lengur í heiminum og því skiptir samstarf grannþjóða enn meira máli. Við viljum að framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði orðin samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030 verði að veruleika. Það er því rík ástæða til að setja aukið púður í að einfalda viðskipti á milli norrænu landanna og meiri kraft í að ryðja úr vegi þeim stjórnsýsluhindrunum sem þrátt fyrir allt eru enn til staðar,“ segir Ahnlid.

Stjórnsýsluhindranaráðið sér hag í samstarfi

Anders Ahnlid kynnti skýrsluna Stronger Integration and Enhanced Free Movement in the Nordic Region á fundi Stjórnsýsluhindranaráðsins í Ósló þann 27. apríl þar sem hún hlaut góðar undirtektir.

„Þetta er skýrsla sem inniheldur beinar tillögur á fimm skýrum sviðum sem Kommerskollegium vill vinna með. Þau eru almennari en gengur í starfi Stjórnsýsluhindranaráðsins en það eru greinileg tengsl, þannig að þar sem um stjórnsýsluhindranir er að ræða, t.d. varðandi staðla, sé ég hag í samstarfi,“ segir Vibeke Hammer Madsen, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins á árinu 2022.

Bæði Stjórnsýsluhindranaráðið og Kommerskollegium vinna að því að auka frjálsa för innan Norðurlanda. Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur bæði með mál sem snerta einstaklinga og fyrirtæki en Kommerskollegium er opinber stofnun í Svíþjóð sem fer með málefni utanríkisviðskipta, innri markaðar ESB og viðskiptastefnu.

Norski samstarfsráðherrann í heimsókn

Stjórnsýsluhindranaráðið hélt tveggja daga fund í Ósló 27.–28. apríl. Meðal gesta á fundinum var þróunarmálaráðherra Noregs, Anne Beathe Kristiansen Tvinnereim sem er formaður norrænu samstarfsráðherranna á árinu 2022. Jafnframt heimsótti Runar Myrnes Balto frá Samaþinginu fundinn og kynnt skýrslu um þær stjórnsýsluhindranir sem Samar reka sig á á Norðurlöndum.

Einnig nýtti Stjórnsýsluhindranaráðið fundinn til að fara vel yfir það hvernig ráðið hyggst vinna að hinum þremur stóru áherslumálum sínum: stafvæðingu, skattamálum og gagnkvæmri viðurkenningu á starfsréttindum.