Norðurlönd staðfesta öflugar skuldbindingar í loftslagsmálum

02.05.17 | Fréttir
Luftballon
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org
Norðurlönd stefna hátt í loftslagsmálum og eru í fararbroddi á sviðinu. Þessu var slegið föstu á þriðjudaginn þegar norrænu umhverfis- og loftslagsmálaráðherrarnir funduðu í Ósló og samþykktu nýja yfirlýsingu um loftslagsmál.

Í Óslóaryfirlýsingunni er tekið fram að loftslagsbreytingarnar eru eitt stærsta viðfangsefni mannkyns og því eru ráðherrarnir eindregið fylgjandi löggjöf sem byggir á loftslagsvísindum og staðreyndum.

„Það er afar mikilvægt að Norðurlönd stígi fram og taki skýra forystu í loftslagsmálum. Mikil þörf er á því að lönd sýni fram á hinn gríðarlega ávinning sem felst í umskiptum til vistvænna samfélags. Framkvæmd Parísarsamkomulagsins er ekki aðeins lykilatriði fyrir komandi kynslóðir, heldur einnig efnahagslega hagkvæm,“ segir Isabella Lövin, ráðherra alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og loftslagsmála í Svíþjóð.

Í yfirlýsingunni kveðast umhverfis- og loftslagsmálaráðherrarnir staðráðnir í því að aðildarríki Parísarsamkomulagsins starfi áfram að skilvirkri og samfelldri framkvæmd þess. Stefnt verði að samráði á árinu 2018 þar sem allir aðilar íhugi að auka metnað sinn fyrir árið 2020 í ljósi niðurstaða rannsókna. Kolefnisgjöld og niðurfelling á niðurgreiðslum til jarðefniseldsneytis eru nefnd sem mikilvæg tæki.

Bráðnun norðurskautsins hefur áhrif um allan heim

Í Óslóaryfirlýsingunni lýsa ráðherrarnir yfir þungum áhyggjum af þeirri staðreynd að hlýnun andrúmsloftsins á norðurslóðum er meira en tvöfalt hraðari en annars staðar í heiminum. Minnkun ísbreiðunnar raskar orkujafnvæginu í heiminum og hefur áhrif á loftslag um allan heim.

„Vandinn sem skapast á norðurslóðum er engan veginn staðbundinn. Þegar sífreri bráðnar losnar metangas úr læðingi og hraðar enn frekar hlýnun andrúmsloftsins. Þegar ísbreiður bráðna og yfirborð sjávar hækkar, ógnar það samfélögum og þéttbýli á láglendum svæðum um allan heim,“ segir Vidar Helgesen, loftslags- og umhverfismálaráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál á árinu 2017.