Norræn og úkraínsk ungmenni koma saman í sumarbúðum í Útey

15.06.23 | Fréttir
Ramus emborg unr
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlandaráð æskunnar (UNR) stendur fyrir sumarbúðum í Útey í Noregi í júlí. Tilgangurinn er að auka þátttöku ungs fólks í stjórnmálum á Norðurlöndum ásamt því að veita ungu fólki frá Norðurlöndum og Úkraínu tækifæri til að skiptast á þekkingu. Norðurlandaráð tekur þátt í að fjármagna búðirnar.

„Ungt fólk frá Úkraínu verður að halda áfram að upplýsa og vekja athygli á innrásarstríði Rússa í Úkraínu. Norræn-úkraínsku sumarbúðirnar veita okkur tækifæri til að halda úkraínskum sjónarmiðum á lofti. Við munum meðal annars ræða hvernig samstöðu og stuðningi við úkraínsk ungmenni verður viðhaldið til lengri tíma,“ segir einn úkraínsku gestanna, Dmytro Mamaiev, doktorsnemi við miðstöð félagsvísinda í Litháen og alþjóðaritari samtakanna SD Platform.

Við munum meðal annars ræða hvernig samstöðu og stuðningi við úkraínsk ungmenni verður viðhaldið til lengri tíma.

Fjörutíu ungmenni frá Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Færeyjum taka þátt í búðunum ásamt átta gestum frá Úkraínu. Búðirnar standa í fjóra daga og haldnar verða vinnustofur þar sem þátttakendur fá innsýn í norrænt samstarf og starfsemi Norðurlandaráðs æskunnar. Jafnframt munu þau kynna sér ýmis pólitísk málefni, svo sem réttinn til þess að búa í sjálfbæru landi, stafrænan aktívisma og geðheilbrigðismál. Ein vinnustofan verður sérstaklega helguð stríðinu í Úkraínu og hvernig styðja megi við úkraínska aðgerðasinna.

„Við lítum á svona sumarbúðir sem fjárfestingu í vináttu, samkennd og trausti. Við erum þess fullviss að norræn og úkraínsk ungmenni geti lært margt hvert af öðru og að mikilvægar umræður um mannréttindi, umburðarlyndi og margbreytileika muni eiga sér stað þessa daga á Útey,“ segir Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs.

Ungt fólk þarf að hittast

„Það er mikil þörf á því að mynda tengsl og stofna til nýrra vinasambanda, sérstaklega í kjölfar faraldursins. Við getum skipst á reynslu, lært af aðstæðum hvers annars og veitt hvert öðru innblástur. Fundurinn mun styrkja norræna ungmennapólitík,“ segir Rasmus Emborg, forseti Norðurlandaráðs æskunnar.

Að mati Norðurlandaráðs æskunnar er mikil þörf á því að ungt fólk hittist að heimsfaraldrinum loknum. Ein af megináherslum Norðurlandaráðs árið 2023 er að virkja ungt fólk betur í samfélaginu og stjórnmálum.

„Það er lögð mikil áhersla á að auðvelda ungu fólki þátttöku í samfélaginu og stjórnmálum hjá Norðurlandaráði og í formennskuáætlun Noregs árið 2023. Sú hefð að taka tillit til barna og ungs fólks er rík á Norðurlöndum og þátttaka unga fólksins skiptir höfuðmáli fyrir samfélög okkar og lýðræðið,“ segir Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs.

Það er mikil þörf á því að mynda tengsl og stofna til nýrra vinasambanda, sérstaklega í kjölfar faraldursins.

Saman komum við ungmennapólitík á dagskrá

Auk nýrra tengsla og vina er markmið sumarbúðanna að umræðurnar skili sér í beinum pólitískum tillögum.

„Við vonumst til þess að geta komið með nokkrar beinar tillögur frá sumarbúðunum sem við getum kynnt í bæði Norðurlandaráði og heimalöndum okkar. Saman getum við komið ungmennapólitík á dagskrá á Norðurlöndum,“ heldur Emborg áfram.

Heiðra minningu fórnarlamba með því að halda áfram

Árið 2011 var versta hryðjuverkaárás í sögu Noregs framin í Útey þar sem 77 manns fórust, flest af þeim á unglingsaldri. Í dag kemur ungt fólk alls staðar að úr heiminum saman í Útey til að styrkja samstöðu, fræðast og minnast.

„Við viljum heiðra minningu þeirra sem fórust í Útey og taka þátt í að endurreisa stað þar sem ungt fólk getur rætt um stjórnmál og fundið samstöðu,“ segir Emborg.

Við viljum heiðra minningu þeirra sem fórust í Útey og taka þátt í að endurreisa stað þar sem ungt fólk getur rætt um stjórnmál og fundið samstöðu.