Norrænar lausnir eiga að tryggja sjálfbærar borgir
Danir gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2015 og á tímabilinu 2015–2017 stendur danska húsnæðismálaráðuneytið, í samstarfi við Norrænu nýsköpunarmiðstöðina, fyrir norrænni samkeppni um nýskapandi lausnir í borgarrými.
Norðurlandaþjóðir eru þekktar fyrir gott þéttbýlisskipulag og vill danska formennskan nú setja norrænar þéttbýlislausnir í brennidepil.
„Norðurlönd hafa lag á að skipuleggja þéttbýli með þeim hætti að það megi við aukinni þéttingu byggðar. Miklir pólitískir hagsmunir felast í því að borgir í örum vexti verði lífvænlegar. Þá fylgja því fjárhagslegir hagsmunir að selja vaxandi byggðarlögum nýstárlegar vörur og lausnir,“ segir Carsten Hansen, ráðherra húsnæðis-, bæja og byggðamála og norrænna málefna í Danmörku og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar 2015.
Nordic Built Cities Arena
Nordic Built Cities verður í brennidepli á ráðstefnunni Nordic Built Cities Arena, sem fram fer í Kaupmannahöfn 27. apríl og er skipulögð af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni, húsnæðis-, bæja- og byggðaráðuneyti Danmerkur og danska viðskiptaráðinu (Erhvervsstyrelsen). Skráðir þátttakendur eru yfir 200 og meðal framsögumanna verða þrír norrænir ráðherrar og fjöldi sérfræðinga. Auk samkeppninnar munu útflutningssóknarfæri vera í forgrunni verkefnisins.
Meginmarkmiðið með verkefninu er að þróa snjallar, aðlaðandi og sjálfbærar lausnir fyrir borgarrými á Norðurlöndum. Að auki eru fyrirhugaðar aðgerðir til að skipuleggja áhrifaríka markaðssetningu á norrænum þéttbýlislausnum fyrir vaxandi byggðarlög um allan heim. Þannig er áherslusvið Nordic Built Cities norrænt en jafnframt alþjóðlegt með áherslu á útflutning.
Samkeppni sjálfbærra borgarrýma
Samkeppnin fer fram í þremur hlutum. Í fyrsta hluta (mars 2015 til júní 2015) keppa norrænar borgir og sveitarfélög um að verða í hópi þeirra allt að átta borgarrýma sem svæðisbundnu samkeppnirnar verða haldnar í.
Í öðrum hluta (ágúst 2015 til desember 2015) býðst norræna byggingageiranum og skyldum geirum að senda tillögur að lausnum fyrir þau borgarrými sem hafa orðið fyrir valinu. Dómnefnd, skipuð heimafólki frá viðkomandi svæðum, velur svo að hámarki fjórar tillögur til úrslita fyrir hvert borgarrými.
Í þriðja hluta samkeppninnar (desember 2015 til maí 2016) munu þeir aðilar sem keppa til úrslita vinna að útfærslu endanlegra lausna sinna, í nánu samstarfi við yfirvöld í viðkomandi borgarrými. Að því loknu er einn vinningshafi valinn fyrir hvert borgarrými og fá þeir tækifæri til að hrinda lausnum sínum í framkvæmd. Óháð dómnefnd norrænna og alþjóðlegra sérfræðinga útnefnir norrænan vinningshafa úr hópi svæðisbundnu vinningshafanna og hlýtur hann verðlaun að upphæð 1,2 milljónir n.kr.
Nordic Built Cities verður einnig þáttur í stóru norrænu kynningarverkefni fyrir loftslagsráðstefnuna COP21 í París í desember, undir yfirskriftinni „New Nordic Climate Solutions“.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, Nordic Built Cities og Nordic Built Chartret.