Norrænir fjármálaráðherrar ræddu efnahagslegar afleiðingar stríðsins

28.06.22 | Fréttir
Nordiska finansministrar, MR-Finans, i Norge 2022
Ljósmyndari
Kenneth Hætta/Norges Finansdepartement
Norrænu fjármálaráðherrarnir hittust í Eidsvoll 1814 í Noregi þann 27. júní. Á dagskrá voru meðal annars efnahagslegar afleiðingar stríðsins í Úkraínu og hlutverk ríkisins þegar kemur að aðgerðum þegar óvenjulegar aðstæður eru uppi, svo sem stríð og heimsfaraldur.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur haft miklar afleiðingar fyrir efnahag heimsins sem meðal annars koma fram í hærra orku-, matvæla og hrávöruverði. Á fundinum í Noregi gafst norrænu fjármálaráðherrunum tækifæri til að skiptast á reynslu af þeim aðgerðum sem löndin hafa gripið til eða hyggjast grípa til vegna stríðsins.

Efnahagsástandið er erfitt fyrir öll norrænu löndin en efnahagsstefnan er að jafna sig eftir endurræsingu efnahagsins í kjölfar faraldursins. Á sama tíma þrengir stríðið í Úkraínu að opinberum fjármálum með nýjum hætti. Stríðið kallar meðal annars á aukin útgjöld til varnarmála, bæði á þessu ári og næstu árum, og hið sama á við um móttöku flóttafólks. Þetta hefur áhrif á efnahagsstefnuna bæði til lengri og skemmri tíma.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir þá áskorun sem það er að koma böndum á erfitt ástand á vinnumarkaði og háa verðbólgu með tilliti til aukinna útgjalda til varnarmála og ákalls um stuðning vegna hækkandi verðlags.

Hlutverk ríkisins við sérstakar aðstæður

Jafnframt ræddu fjármálaráðherrarnir hlutverk ríkisins þegar kemur að fjárhagslegum stuðningi við sérstakar aðstæður. Sú spurning á mikið erindi í kjölfar faraldursins og einnig í tengslum við stríðið í Úkraínu.

Meðal annars ræddu ráðherrarnir hvernig ríkið eigi að koma til móts við ákall um fjárhagslegan stuðning á erfiðleikatímum, meðal annars frá einkaaðilum. Úrlausnarefnin eru þau sömu í norrænum löndunum og á fundinum gátu ráðherrarnir skipst á reynslu af viðbrögðum við stórum samfélags- og efnahagslegum áskorunum á erfiðleikatímum.

Þá voru loftslagsmálin einnig rædd á fundinum. Mikilvæg spurning í því sambandi er hvernig fjármálaráðuneytin á Norðurlöndum geti lagt sitt af mörkum til loftslagsvænnar og efnahagslega sjálfbærrar þróunar með því að flétta loftslagsaðgerðir inn í efnahagsstefnuna.