Nú er tímabært að opna dyrnar

14.05.19 | Fréttir
 Nordiska och baltiska ministrarna ansvariga för digitalisering, Reykjavik Maj 2019
Photographer
Gudmundur Ingolfsson/Ímynd

Ráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem fara með málefni stafrænnar þróunar hafa mikinn metnað fyrir því að þróa hnökralausar rafrænar lausnir fyrir almenning og stjórnvöld í löndunum. Gagnkvæm viðurkenning á rafrænum auðkennum landanna er lykillinn sem á að ljúka upp opinberri þjónustu þvert á landamæri fyrir alla íbúa á svæðinu. 

Frá vinstri: Elijus Čivilis vararáðherra (Litháen), Tony Asumaa menntamálaráðherra (Álandseyjum), Nikolai Astrup, ráðherra stafrænnar þróunar (Noregi), Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra (Íslandi), Kristina Háfoss fjármálaráðherra (Færeyjum), Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri (Norrænu ráðherranefndinni), Jens Krieger Røyen skrifstofustjóri (Danmörku), Ando Leppiman framkvæmdastjóri (Eistlandi), Edmund Belskis, aðstoðarmaður utanríkisráðherra (Lettlandi), Malin Bohlin skrifstofustjóri (Svíþjóð), Tom Andersen skrifstofustjóri (Grænlandi).

Norðurlandabúar geta hlakkað til að fá rafrænan aðgang að opinberri þjónustu óháð landamærum á næstu árum. Lykillinn hefur þegar verið smíðaður en löndin þurfa að ákveða hvaða dyr hann á að opna.

Aðgangur íbúa Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna að rafrænni þjónustu milli landa er einn af hornsteinum stafrænnar samþættingar á svæðinu og greiðir fyrir frjálsri för fólks og fyrirtækja jafnt í eiginlegum skilningi sem stafrænum. Lykillinn er rafrænt auðkenni (skammstafað eID) sem íbúar landanna nota nú þegar til að opna aðgang að rafrænni þjónustu á borð við bankaviðskipti, skattaskráningu og fleira.

Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fara með málefni stafrænnar þróunar hittust á fundi í Reykjavík á þriðjudag. Þeir voru á einu máli um að samstarfið um gagnkvæma viðurkenninga á rafrænum auðkennum landanna væri svo vel á vegi statt að unnt væri að taka frekari skref fram á við.

Sérfræðingahópur verður settur á laggirnar til að greina á hvaða sviðum opinberrar þjónustu einstaklingar og fyrirtæki hafa mest gagn af hnökralausum rafrænum lausnum þvert á landamæri.

„Stafrænar lausnir og þjónusta eru alltumlykjandi í samfélaginu og ber að líta á sem verkfæri íbúanna til að sækja sér sjálfsagða þjónustu hindranalaust. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hafa forskot að því leyti að löndin geta unnið mjög náið saman. Þau geta því þróað bestu lausnirnar óháð landamærum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands.

Stafrænar lausnir og þjónusta eru alltumlykjandi í samfélaginu og ber að líta á sem verkfæri íbúanna til að sækja sér sjálfsagða þjónustu hindranalaust. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hafa forskot að því leyti að löndin geta unnið mjög náið saman. Þau geta því þróað bestu lausnirnar óháð landamærum.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands

Stjórnkerfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna eru áþekk og stafrænar lausnir mjög þróaðar. Löndin henta því vel fyrir skjóta innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um stafrænan innri markað (Digital Single Market) sem í stuttu máli leggur ESB- og EES-ríkjum þær skyldur á herðar að bjóða upp á rafrænar lausnir sem ekki takmarkast af landamærum. Þetta þýðir að nota megi rafræn auðkenni eins lands til að fá aðgang að opinberri þjónustu í öðru landi.

Samstarfsráðherrar Norðurlanda fylgjast náið með samstarfinu um stafræna þróun. Þeir lýsa sig fúsa til að styrkja verkefnið fjárhagslega og stuðla að því að það njóti tilætlaðs forgangs.

„Ánægjulegt er að Norræna ráðherranefndin geti gegnt veigamiklu hlutverki á sviði sem mun hafa svo mikla þýðingu fyrir Norðurlandabúa. Grunnurinn að nánari stafrænni samþættingu á svæðinu hefur verið lagður. Nú færist verkefnið á hærra stig. Þær lausnir sem unnið er með verða hagnýtar og gagnlegar fyrir íbúa Norðurlanda og það frekar en nokkru sinni fyrr,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Grunnurinn að nánari stafrænni samþættingu á svæðinu hefur verið lagður. Nú færist verkefnið á hærra stig. Þær lausnir sem unnið er með verða hagnýtar og gagnlegar fyrir íbúa Norðurlanda og það frekar en nokkru sinni fyrr.

Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki