Ný aðferð skilar hagtölum um vinnuferðalög á norrænum landamærasvæðum

04.02.22 | Fréttir
Pendlare på tågstation.
Ljósmyndari
Yadid Levy/norden.org
Í fyrsta sinn síðan 2015 hefur tekist að afla talna um fjölda þeirra sem ferðast á Eyrarsundssvæðinu milli Danmerkur og Svíþjóðar vegna vinnu sinnar. Talnanna er aflað með nýrri aðferð sem einnig veitir öðrum norrænum landamærasvæðum tækifæri til að afla mikilvægra hagtalna.

Nýju hagtölurnar frá Eyrarsundssvæðinu sýna að 18.200 manns ferðuðust milli Danmerkur og Svíþjóðar vegna vinnu sinnar árið 2020. Þar af áttu 15.300 heima í Svíþjóð og stunduðu vinnu í Danmörku en 2.900 áttu heima í Danmörku og stunduðu vinnu í Svíþjóð.

Þessar tölur sýna að vilji fólks til þess að stunda vinnu handan landamæra hefur ekki tekið miklum breytingum þrátt fyrir flóttamannavanda 2015 og heimsfaraldur síðustu tveggja ára sem leitt hafa til daglegs landamæraeftirlits.

Hagtölurnar urðu til í samstarfi Danmarks Statistik og Statistiska Centralbyrån í Svíþjóð ásamt Region Skåne.

Nýju hagtölurnar byggja á tölfræðigögnum landanna

Þetta er í fyrsta sinn síðan 2015 sem tekist hefur að afla talna um fjölda þeirra sem starfa handan landamæra á Eyrarsundssvæðinu. Síðustu ár hefur ekki verið hægt að sækja þessar hagtölur vegna þess að hagstofur landanna hafa ekki haft lagaheimild til að skiptast á upplýsingum um íbúa eða svonefndum örgögnum.

Hagtölur fyrir Eyrarsundssvæðið byggja á nýrri aðferð þar sem tölurnar eru sóttar beint í fyrirliggjandi tölfræðigögn landanna. Með þeirri aðferð þurfa löndin ekki að skiptast á persónuupplýsingum milli hagstofa sinna.

Góðar fréttir fyrir önnur landamærasvæði

Nýja aðferðin gerir öðrum landamærasvæðum á Norðurlöndum einnig kleift að sækja tölur um ferðalög fólks yfir landamæri vegna vinnu.

„Þetta eru góðar fréttir. Hagtölur um vinnuferðalög yfir landamæri eru afar mikilvægar fyrir norrænu landamærasvæðin og ég vona að þessi nýja aðferð muni einnig gagnast öðrum landamærasvæðum,“ segir Vibeke Hammer Madsen sem er formaður norræna stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2022.

Málefnið ofarlega á baugi

Stjórnsýsluhindranaráðið sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina vinnur að frjálsri för milli norrænu landanna og aðgangur að hagtölum frá landamærasvæðunum er mikið forgangsmálefni ráðsins.

Málefnið er einnig ofarlega á baugi hjá Norðurlandandaráði. Ekki er lengra síðan en í nóvember 2021 að samþykkt voru svonefnd tilmæli þar sem norrænu ríkisstjórnirnar eru hvattar til að styrkja umboð stjórnsýsluhindranaráðsins og hlutverk þess til þess að koma á fót varanlegu samstarfi um hagtölur landamærasvæða.

Nýjar hagtölur skipta sköpum

Nýju hagtölurnar voru kynntar á vefmálþingi sem Region Skåne stóð fyrir 2. febrúar. Viðtökur áheyrenda voru afar jákvæðar. Eftirvænting ríkti varðandi uppfærðar hagtölur eftir nokkurra ára hlé.

„Nýjar hagtölur vegna vinnuferðalaga eru okkur afar mikilvægar hjá Region Skåne. Tölurnar eru meðal annars nauðsynlegar til þess að hægt sé að fylgjast með þróun vinnumarkaðar á svæðinu og skipuleggja innviði, svo sem samgöngur, húsnæði og skóla,“ segir Ulrika Geeraedts þróunarstjóri svæða hjá Region Skåne.