Ný skýrsla: Hringrás er lykillinn að sjálfbærum tísku- og textíliðnaði á Norðurlöndum
Enginn vafi leikur á að tísku- og textíliðnaðurinn tekur ríkulega til sín af auðlindum og tengist það mikilli kolefnislosun og mikilli notkun á vatni, orku og landi. Á sama tíma er tísku- og textíliðnaðurinn í vexti og búist er við áframhaldandi vexti næstu árin. Hvað er hægt að gera til þess að draga úr umhverfisáhrifum þessa iðnaðar? Ný skýrsla sem gefin er út af The Nordic Textile Collaboration veitir yfirlit yfir norræn verkefni á þessu sviði og bendir á tækifæri til aukins samstarfs á Norðurlöndum. Í yfirlitinu kemur fram að víðs vegar á Norðurlöndum fer fram mikið nýsköpunarstarf í öllum liðum virðiskeðju textíls en flest verkefnin eru smá í sniðum og landsbundin.
Við verðum að læra hvert af öðru
„Það er afar skynsamlegt fyrir Norðurlöndin að vinna saman, læra hvert af öðru og standa saman að aðgerðum,“ segir Louise Munkholm, verkefnastjóri.
Í hennar huga felast sérstaklega mikil tækifæri í að miðla þekkingu um hringlaga viðskiptalíkön í ljósi þess að skortur á færni og verkfærum á sviði hringrásarhugsunar er augljós hindrun í vegi sjálfbærs hagkerfis í textíliðnaði á Norðurlöndum. Hegðun neytenda, hringrásarhönnun og meðferð textílúrgangs eru einnig dæmi um svið þar sem Norðurlöndin geta lært hvert af öðru og fundið sameiginlegar lausnir. Í skýrslunni er því einnig bent á nauðsyn þess að endurhugsa alla virðiskeðjunni til að sjálfbærara og hringlaga textílhagkerfi verði náð.
Tvö verkefni í uppsiglingu
Á grundvelli niðurstaðna skýrslunnar hefur The Nordic Textile Collaboration ýtt úr vör tveimur verkefnum sem ætlað er að styðja norrænan tísku- og textíliðnað í umskiptum til þess að starfa í anda hringrásar. Í öðru verkefninu verða greindar hindranir í vegi hringlaga viðskiptalíkana og þeim rutt úr vegi en hinu er ætlað að tryggja miðlun þekkingar á bestu starfsvenjum á sviði hringrásar þvert á Norðurlönd og þvert á virðiskeðjur textíls.
Starfið byggir á myndun tengslaneta og geta allir hagaðilar tekið þátt skuldbindingalaust og þar með lagt sitt af mörkum til að hafa áhrif á áframhaldandi áherslur verkefnisins. Nánari upplýsingar um starfsemi The Nordic Textile Collaboration og hvernig þú getur tekið þátt henni má finna með því að opna hlekkinn hér að neðan.
The Nordic Textile Collaboration er samstarf danskra, finnskra, norskra og sænskra stjórnvalda, fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið beinist að sameiginlegum umhverfis- og loftslagsáskorunum sem tengjast vaxandi notkun textíls á Norðurlöndum.