Nýi framkvæmdastjórinn, Karen Ellemann, vill sjá árangur

09.01.23 | Fréttir
Nordiska ministerrådets generalsekreterare Karen Ellemann.

Karen Ellemann

Photographer
Mathilde Schmidt / Norden.org

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Skilvirkt norrænt samstarf sem skilar árangri. Í því liggur metnaður nýs framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, Karenar Ellemann. Leiðin þangað liggur í gegnum samvinnu.

Karen Ellemann frá Danmörku tók við stöðu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar um áramótin og það fer ekki á milli mála að hún tekur við starfinu full eldmóði.

Draumastarfið, að sögn hennar sjálfrar. Það vissi hún um leið og staðan var auglýst.

„Þegar ég las auglýsinguna og sá að hverju var verið að leita fannst mér hún eins og skrifuð um mig. Þetta er svo mikilvægt og áhugavert verkefni og þess vegna sótti ég um. Norrænt samstarf er mikilvægara en nokkru sinni og í mínum huga er aukið samstarf lausnin á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við getum leyst svo margt með því að vinna saman.“

Fyrrverandi Norðurlandaráðherra

Karen Ellemann er vel kunnug Norðurlöndum. Hún hefur bæði verið samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku og setið í Norðurlandaráði. En það eru mörg ár síðan hún var virk í norrænu samstarfi svo hún vill bíða með stefnuyfirlýsingu.

„Fyrstu hundrað dagana mun ég leyfa mér að kynnast sviðinu, heimsækja fólk, hlusta á það og hitta starfsfólk stofnananna og aðra samstarfsaðila. Það skiptir mig miklu máli að heyra sjónarmið annarra til að ég geti gert mér betri mynd af norrænu samstarfi.“

Samstarf skiptir höfuðmáli

Samstarf er orð sem Karen Ellemann er tamt að nota. Hún undirstrikar oft að árangur snúist um að spila saman sem lið. Hún leggur áherslu á mikilvægi vel starfhæfrar skrifstofu og þýðingu norrænu stofnananna ásamt samspili almennings og fyrirtækja.

„Ég er ekki sérfræðingurinn. Ég nýt þeirra forréttinda að fá að koma inn í hús og stofnun sem nú þegar býr yfir ótrúlegri fagþekkingu og hæfni,“ segir Ellemann.

Hún nefnir einnig gagnsemi þess að hafa reynslu annarra mikilvægra aðila, svo sem norrænu þjóðþinganna og ríkisstjórnanna, auk Norðurlandaráðs. Það á ekki síst við þegar kemur að vinnunni að framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlönd verðir sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

„Það krefst vilja og ötullar vinnu að ná þessum markmiðum, ekki bara af hálfu Norrænu ráðherranefndarinnar, heldur allra aðila. Sem betur fer eru þeir margir,“ segir Ellemann.

Ráðherranefndin laði að sér sérfræðinga

Karen Ellemann ætlar að vinna að því að ráðherranefndin verði skilvirk og eftirsótt stofnun.

„Það skiptir mig máli að orðspor Norrænu ráðherranefndarinnar sé gott. Ráðherranefndin á að vera staður sem fólk vill vinna á og draga til sín besta og snjallasta fólkið sem vill vinna við norrænt samstarf. Metnaður minn er að það sé vel starfhæf og skilvirk stofnun sem laðar að sér öflugt starfsfólk.“

Ellemann fer heldur ekki í grafgötur með að hún vilji sjá árangur sem íbúar á Norðurlöndum finna fyrir í daglegu lífi sínu.

„Íbúar okkar njóta nú þegar góðs af því að við erum mjög samþætt svæði. En þeir vita kannski ekki alltaf af því eða hugsa ekki alltaf út í það, svo það verður mikilvægt verkefni að upplýsa um það hvenær norrænt samstarf gagnast fólki. En við þurfum líka að vera opin fyrir því að sjá tækifæri til úrbóta í starfinu, því þau eru líka til staðar.“

Gagnrýni frá fjölmiðlum

Karen Ellemann er þekkt úr dönskum stjórnmálum, m.a. eftir að hafa setið í 15 ár á danska þinginu og gegnt ráðherraembættum.

Ráðning hennar hlaut því mikla athygli í dönskum fjölmiðlum. Og gagnrýnin var hörð, að hluta til vegna þess að árið 2013 skrifaði hún grein þar sem hún gagnrýndi norrænt samstarf, og að hluta til vegna þess hún sótti um stöðu framkvæmdastjóra á sama tíma og hún bauð sig fram til þingsins í haust, og var kjörin.

Sjálf segir hún að greinin hafi átt sinn þátt í að hún hlaut stöðuna.

„Þegar maður les þessa gömlu grein verður ekki fram hjá því litið að hún er hylling til norræns samstarf og öflug hvatning um að fá samstarfið til að skila árangri.“

Varðandi það að hafa boðið sig fram til þingsetu samhliða því að hafa sótt um stöðu framkvæmdastjóra segir hún:

„Tímasetningin var auðvitað óheppileg, en á hinn bóginn þekki ég engan sem segir upp starfi sínu án þess að vera búinn að fá annað starf. Og ég upplýsti um ráðninguna um leið og ég hafði skrifað undir samninginn.“

Karen Ellemann er ráðin til fjögurra ára með möguleika á tveggja ára framlengingu. Hún tekur við af Paulu Lehtomäki sem lét af störfum í haust.

 

Staðreyndir:

Nafn: Karen Ellemann.

Fædd: 26. ágúst 1969 í Charlottenlund í Danmörku.

Búseta: Í Taarbæk.

Fjölskylda:  Eiginmaður, tvö börn og tvö fósturbörn á aldrinum 23–27 ára. Einn hundur og einn köttur.

Flokksaðild: Venstre (frjálslyndur íhaldsflokkur).

Þinkgona á Folketinget frá 13. nóvember 2007 – 1. nóvember 2022.

Hefur verið sjávarútvegs- og jafnréttisráðherra, félags- og innanríkisráðherra og umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda.

Menntuð sem kennari og hefur meðal annars unnið sem blaðamaður, yfirmaður í kvikmyndahúsi og deildarstjóri á samskiptasviði.