Rasmus Emborg kjörinn forseti Norðurlandaráðs æskunnar

30.10.22 | Fréttir
Rasmus Emborg UNR
Photographer
Jere Tuononen/UNR
Rasmus Emborg frá Danmörku var kjörinn forseti Norðurlandaráðs æskunnar (UNR) á þingi ráðsins í Helsinki í dag. Þetta er annað árið sem Rasmus Emborg er forseti þingsins.

„Ég er afar þakklátur fyrir trúnaðinn sem fulltrúar UNR sýna mér og fyrir það traust sem felst í að fá að halda áfram að stýra ráðinu. Ég ætla að vinna að því að norræn ungmennahreyfing verði sterk og að hún endurspegli þann raunveruleika sem við unga fólkið lifum í með vaxandi loftlagskreppu, andlegri vanheilsu meðal ungs fólks og brotum gegn lýðræðilegum réttindum víðsvegar í heiminum,“ segir Rasmus Emborg. 

 

Rasmus Emborg er 25 ára og félagi í ungmennahreyfingu danskra jafnaðarmanna. Hann er fulltrúi ungra norrænna jafnaðarmanna í UNR. Hann er með BA-próf í stjórnmálafræði og hefur reynslu af norrænu samstarfi og stjórnun en hann hefur verið ráðgjafi hjá danska jafnaðarmannaflokknum. Undanfarið ár hefur hann lagt áherslu á að auka áhrif UNR í Norðurlandaráði.

 

Í ár hefur UNR í fyrsta sinn heimild til að taka til máls á öllum fundum Norðurlandaráðsþingsins sem eykur tækifæri til áhrifa og styrkir rödd ungs fólks á Norðurlöndum. 

 

„Auknum áhrifum fylgja einnig nýjar kröfur og ég hlakka til að halda áfram að þróa samstarfið við Norðurlandaráð og tryggja framtíð UNR á komandi ári. Ég ætla einnig að ýta úr vör samstarfi þar sem við tökumst af alvöru á við andlega vanheilsu ungs fólks á Norðurlöndum,“ segir Rasmum Emborg. 

 

UNR fjallaði um 40 tillögur á þinginu. Tillögurnar sem samþykktar voru verða sendar áfram til þings Norðurlandaráðs sem haldið verður í Helsinki dagana 31. október til 3. nóvember.

 

Tengiliður: 
Rasmus Emborg 
rasmusemborg@gmail.com

 

Contact information