Einu skrefi nær formlegu norrænu samstarfi um samgöngumál
Norðurlandaráð hefur í nærri fjögur ár þrýst á um að norrænu löndin auki samhæfingu stórra innviðaverkefna í sérstakri ráðherranefnd um innviði í Norrænu ráðherranefndinni.
Norðurlandaráð telur að meiri samhæfing skipti sköpum um að Norðurlandaráð nái markmiðum framtíðarsýnar forsætisráðherranna fyrir 2030. Framtíðarsýnin krefst samhæfingar milli Norðurlandanna um stefnumörkun til þess að skapa megi sjálfbærar lausnir í samgöngum á hafi, landi og í lofti. Þetta snýr meðal annars að rafvæðingu hafna og siglinga, rafvæðingu flugsamgangna, sjálfbærum vöruflutningum og norrænni áætlun um háhraðalestir.
„Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í mörg ár. Árið 2018 benti einróma Norðurlandaráð á mikilvægi þess að samstarf um samgöngumál yrði formfest. Undir þetta tekur atvinnulífið í heild sinni. Auk þess hafa tólf nefndir landamærasvæða óskað eftir ráðherranefnd um samgöngumál. Ég ætla ekki að hætta fyrr en búið er að ganga frá þessu,“ segir Stein Erik Lauvås, talsmaður samgöngumála í norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni.
Jákvæð teikn
Málið hefur þokast í rétta átt í formennskutíð Norðmanna í Norrænu ráðherranefndinni 2022. Norðmenn lýstu því yfir í formennskuáætlun sinni að þeir óskuðu einnig eftir að styrkja samstarf um samgöngumál. Nú kemur norski samgönguráðherrann með tillögu um málið.
„Ráðuneytin á Norðurlöndum eiga gott samstarf og við hittumst reglulega. Ég hef líka átt gott samstarf við norræna kollega mína, bæði formlegt og óformlegt. Varðandi ráðherranefnd samgöngumála þá eru Norðmenn hlynntir því að taka þetta skref og koma á fót fastri ráðherranefnd um samgöngumál en löndin eru ekki öll sammála um þetta. Málið verður rætt þegar við fundum í Fredrikstad í næstu viku,“ segir Jon-Ivar Nygård, samgönguráðherra Noregs.
Finnar hafa ákveðið að bíða og sjá til. Timi Harakka, samgönguráðherra Finnlands, vísar ekki á bug hugmyndinni um formfast samstarf en veltir fyrir sér hver ávinningurinn yrði.
„Ég lít þannig á að við getum haldið áfram því góða samstarfi sem fyrir er og kannski til lengri tíma litið hugað að því hvort ráðlegt sé að formfesta samstarfið. Óformlegt samstarf er lipurt og skilvirkt en ég er opinn fyrir því að íhuga opinbert samstarf,“ segir Timo Harakka.
Hver er skoðun Svíþjóðar nú?
Svíar hafa verið hvað frábitnastir formlegu samstarfi. Ekki er vitað hver afstaða Svía er eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum. Sænski þingmaðurinn Åsa Karlsson úr flokkahópi jafnaðarmanna er skýr varðandi það að sænska landsdeildin í Norðurlandaráði standi einnig að baki kröfunni um formlegt samstarf.
„Við vitum ekki hvaða skoðun nýi sænski ráðherrann hefur á málinu en við vitum að í Norðurlandaráði erum við algerlega sammála um að við viljum fara þessa leið. Við viljum ráðherranefnd um innviði. Því verður áhugavert að heyra afstöðu nýja sænska ráðherrans til málsins,“ segir Åsa Karlsson.