Stjórnsýsluhindranir á vinnumarkaði afnumdar

03.02.18 | Fréttir
Eva Tarselius Hallgren
Ljósmyndari
Matts Lindqvist
Enn eru ýmsar hindranir sem torvelda frjálsa hreyfingu innan Norðurlanda, til að mynda á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Stjórnsýsluhindranaráðið hefur einsett sér að afnema þessar hindranir undir stjórn Evu Tarselius Hallgren en hún tók nýverið við formennsku í ráðinu. Starfsumboð ráðsins var víkkað út í ár.

Stjórnsýsluhindranaráðið hélt sinn fyrsta fund á árinu dagana 1. og 2. febrúar í Malmö þar sem ráðið kom sér saman um starfið framundan.  Ráðið var einhuga um að vinna markvisst að afnámi stjórnsýsluhindrana sem enn eru óleystar, meðal annars á vinnumarkaði. Markmiðið er að búið verði að leysa eins margar hindranir og hægt er á fyrri helmingi ársins.

„Á vinnumarkaði eru til að mynda ýmsar hindranir sem Svíar hafa sett í forgang og sem við leggjum áherslu á að leysa. Vinnan er hafin og við vonum að árangurinn komi í ljós fyrir árslok. Við ætlum einnig að líta á hindranir sem enn bíða úrlausnar, sumar allar götur frá því að Stjórnsýsluhindranaráðið tók til starfa árið 2014,“ segir Eva Tarselius Hallgren, nýr formaður ráðsins frá Svíþjóð.

Svíar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og þá einnig í Stjórnsýsluhindranaráðinu.

Starfsumboðið víkkað út

Norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu að víkka út starfsumboð Stjórnsýsluhindranaráðsins fyrir árið 2018. Fulltrúar landanna í ráðinu fá meðal annars aukið svigrúm til að kalla á fund sinn ráðherra og aðra aðila sem geta stuðlað að lausn stjórnsýsluhindrana.

„Fyrir vikið hefur Stjórnsýsluhindranaráðið fengið auknar heimildir.  Við ætlum að vinna enn meira í samstarfsnetum, með samstarfsráðherrunum, yfirvöldum og ráðuneytum en þetta eru einmitt þeir aðilar sem geta stuðlað að afnámi stjórnsýsluhindrana. Þá eru skýr skilaboð um að málefni atvinnulífsins eigi að fá meira vægi og að við eigum að huga betur að þeim,“ segir Eva Tarselius Hallgren.

Fulltrúar með reynslu

Stjórnsýsluhindranaráðið er skipað reynslumiklu fólki og hafa sumir fulltrúar verið ráðherrar um árabil. Ráðið skipa meðal annarra þau Bertel Haarder frá Danmörku, Kimmo Sasi frá Finnlandi og Siv Friðleifsdóttir frá Íslandi.

„Við skynjum mikinn kraft í hópnum.  Mörg okkar hafa starfað lengi og hafa mikla reynslu af afnámi stjórnsýsluhindrana og öðru norrænu samstarfi.  Ég trúi því að okkar bíði mjög gott ár,“ segir Eva Tarselius Hallgren.

Hún getur þess sérstaklega að í nýju starfsumboði Stjórnsýsluhindranaráðsins séu löndin hvött til að gæta að jafnari kynjaskiptingu við tilnefningu fulltrúa í ráðið. Auk hinna átta fulltrúa landanna í ráðinu sitja þar sænski þingmaðurinn Pyry Niemi úr Norðurlandaráði og framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten.

Stjórnsýsluhindranaráðið lendir í landamæraeftirliti

Á leið sinni á fyrsta fund ársins varð Stjórnsýsluhindranaráðið áþreifanlega vart við landamærahindranir. Leiðin lá frá Kastrup-flugvelli í Danmörku en rétt fyrir utan Malmö stansaði lestin í Hyllie þar sem landamæraeftirlit beið ferðalanganna. Sænska lögreglan krefur enn lestarfarþega um að framvísa persónuskilríkjum í Hyllie, sem felur í sér daglega töf fyrir þúsundir einstaklinga sem fara á milli landanna vegna vinnu sinnar.

Í lestinni hitti Stjórnsýsluhindranaráðið Petter Hartman, en hann er einn þeirra sem fer daglega á milli og gat hann sagt frá ýmsum óþægindum vegna stjórnsýsluhindrana og landamæraeftirlits.  Hann er framkvæmdastjóri fyrirtækis á Eyrarsundssvæðinu en þar starfar fólk frá báðum löndunum, Danmörku og Svíþjóð. Hann var með skilaboð til stjórnmálafólksins.

„Sífellt bætast nýjar stjórnsýsluhindranir við og þess vegna eru þessi mál alltaf mikilvæg. Menn þurfa að hafa sig alla við ef takast á að afnema gamlar stjórnsýsluhindranir jafnóðum og nýjar myndast. Ég tel að brýnustu málin sem krefjast úrlausna séu almannatryggingar og skattamál.

Nefnd um afnám stjórnsýsluhindrana er pólitískur vettvangur sem norrænu ríkisstjórnirnar settu á fót til að auðvelda för og flutninga einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Stjórnsýsluhindranaráðið hóf störf árið 2014.