Sýning um tjáningarfrelsi með verkum ungs fólks frá öllum Norðurlöndum opnuð í tengslum við Norðurlandaráðsþing

30.10.23 | Fréttir
Nordiska rådets direktör Kristina Háfoss i samtal med Skoleleverna Linus Aschehaug, Linus Vonheimoch Noriska rådets medlem Katrine Kleveland i samtal med skoleleven Nikita Grozov på Eidsvolls plass i Olso.

Nordiska rådets direktör Kristina Háfoss i samtal med Skoleleverna Linus Aschehaug, Linus Vonheimoch Noriska rådets medlem Katrine Kleveland i samtal med skoleleven Nikita Grozov på Eidsvolls plass i Olso.

Photographer
Stine Østby

Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, nemendurnir Linus Aschehaug, Linus Vonheim og Nikita Grozov og Kathrine Kleveland, þingmaður í Norðurlandaráði.

Á upphafsdegi Norðurlandaráðsþingsins í Ósló voru veitt verðlaun í listasamkeppninni „Ungar raddir á Norðurlöndum“. Ungt fólk frá öllum Norðurlöndum lagði fram verk til keppninnar sem skipulögð er af norsku formennsku Norðurlandaráðs og Norræna félaginu. Þema keppninnar var tjáningarfrelsi og hatursorðræða á netinu og gat framlag þátttakenda bæði verið texti og myndir.

Nú eru vinningsverkin sýnd fyrir framan Stórþingið í Ósló, á Eidsvolls plass – þar sem vinsælt er að tjá skoðanir og mótmæla.

Jorodd Asphjell forseti Norðurlandaráðs segist vona að keppnin stuðli að samtali um tjáningarfrelsi meðal þátttakenda og að umræðan haldi áfram meðal þeirra sem skoða sýninguna.

„Í dag eru margar leiðir til að taka þátt, ekki síst stafrænar. Það getur verið jákvætt en á einnig sínar skuggahliðar með hatursorðræðu á netinu og áreitni sem hræðir fólk þannig að það leggur ekki í að tjá skoðanir sínar. Mér finnst mörg verkin lýsa þeim vanda afar vel.“

Asphjell bendir á að valið sýningarstaðnum sé ígrundað.

„Það er rétt að minna á hið táknræna í því að við erum hér á Eidsvolls plass – einum mikilvægasta vettvangi tjáningarfrelsis og samfélagsþátttöku í Noregi. Hér eru skoðanir tjáðar meira en 700 sinnum á ári. Það skiptir sérstaklega miklu máli á tímum þegar þrengt er að norrænum gildum – við verðum dag hvern að berjast fyrir tjáningarfrelsi, lýðræði og mannréttindum.

Hlustið á okkur unga fólkið!

Linus Aschehaug, Linus Vonheim og Nikita Grozov frá Ris framhaldsskólanum í Ósló voru einnig á Eidsvolls plass en þeir eru allir 15 ára. Ljóð þeirra Hatur á netinu skyggir á norræna frelsishjartað er meðal þeirra verka sem sýnd eru.

„Þegar við byrjuðum að velta fyrir okkur tjáningarfrelsi héldum við að Noregur væri eitt besta land í heimi en hér er líka að finna skuggahlið sem birtist á netinu. Þegar hægt er að vera nafnlaus er auðveldara að segja hvað sem er, líka hluti sem skaða aðra,“ segir Linus Aschehaug.

Einn þremenninganna, Nikita Grozov, er frá Odessa í Úkraínu en flutti til Noregs þegar stríðið hófst. Hann segir þemað mikilvægt og sendir þingmönnum Norðurlandaráðs einfalda kveðju:

„Hlustið á okkur unga fólkið!“

„Já, skoðanir okkar skipta jafnmiklu máli og skoðanir fullorðinna,“ bætir sá þriðji, Linus Vonheim, við.

Strákarnir fengu einnig tækifæri til að ræða við ýmsa þingmenn Norðurlandaráðs í snjókomunni á Eidsvolls plass.

„Það er sannarlega góð tilfinning að ljóðið okkar skuli vera á sýningu hér fyrir framan Stórþingið,“ segja strákarnir.

Vinningsverkin

Textaverk

  • „Við skulum senda 27.931.223 bréf“ eftir Cecilie Malou Lundø Pedersen, 17 ára, Herlufsholm Skole og Gods, Danmörku
  • „Bergmálshellir Emils“ eftir Ingunn H. Viken, Hadeland framhaldsskólanum, Noregi
  • „Kæra samfélag“ eftir Emilie Poulsen, Hasseris framhaldsskólanum, Álaborg, Danmörku 
  • „Bergmálshellar eru stærsta ógnin við norrænu samfélagsgerðina“ eftir Nikolai Eiken, 18 ára, frá Ulsteinvik, Akademiet framhaldsskólanum í Álasundi, Noregi

Myndverk

  • Bergmál, 18 ára, Charlottenlund framhaldsskólanum, Þrándheimi, Noregi
  • Hatur á netinu, Lise og Lotte Muller, Charlottenlund framhaldsskólanum, Þrándheimi, Noregi
  • Maja, 18 ára, Thora Storm framhaldsskólanum, Þrándheimi, Noregi
  • Martynas, 18 ára, Thora Storm framhaldsskólanum Þrándheimi, Noregi

Hatur á netinu skyggir á norræna frelsishjartað

Í hinu norðlæga hjarta þar sem logar frelsis brenna,

Skuggar nethaturs dansa, myrkur sem við verðum að þekkja.

Andi tjáningarfrelsis svífur yfir skógi og fjöllum,

Arfur lýðræðis, frelsistal okkar og sál.

Á stafrænum stígum þar sem orðum er kastað sem steinum,

Eiturörvar nethaturs hitta hjartað að nýju.

Í nafni tjáningarfrelsis verða raddir að hljóma skýrt,

En við verðum að vera á verði og standa gegn hatursröddinni.

Lýðræðið eins og tré, rótfast og sterkt

Í norrænni jörð þar sem réttlætið býr, þar sem vonin er til.

Nethatursstormur reynir að velta við trénu,

Við, börn Norðurlanda, verðum að standa saman um hugsjónina.

Látum orðin verða brýr, ekki hnífa að í myrkri,

Gjöf tjáningarfrelsis er fjársjóður sem við verðum að gæta.

Hjarta lýðræðis slær í brjósti okkar,

Elskum frelsið, stöndum saman, víkjum aldrei.

Byggjum brú í norrænum anda,

Yfir starfræna dali þar sem vindar haturs næða.

Látum sól tjáningarfrelsis skína að eilífu,

Arfur lýðræðis, okkar sameiginlegi kæri vinur.

 

Linus Aschehaug, Linus Vonheim og Nikita Grozov,  Ris framhaldsskólanum í Ósló