Úkraína í brennidepli á þemaþingi Norðurlandaráðs

03.03.22 | Fréttir
Nordiska flaggor
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Innrás Rússa í Úkraínu verður efst á baugi þegar Norðurlandaráð kemur saman á árlegu þemaþingi sínu dagana 21.–22. mars í Malmö. Auk málefna Úkraínu mun ráðið fjalla um samstarf á sviði almannavarna og norræna velferðarlíkanið.

Aðalumræður þemaþingsins, sem fram fara undir liðnum málefni líðandi stundar hinn 22. mars, munu fjalla um innrás Rússa og möguleika Norðurlanda á að aðstoða Úkraínu og stuðla að stöðugleika.

„Vegna innrásar Rússlands er komin upp alvarlegasta staða með tilliti til öryggismála sem upp hefur komið í Evrópu síðan í síðari heimsstyrjöldinni og stríð geisar í nágrenni okkar í Evrópu. Það snertir okkur á Norðurlöndum og í Norðurlandaráði svo sannarlega. Þess vegna er mikilvægt að við fjöllum um málið á þemaþinginu okkar og skoðum með hvaða hætti Norðurlönd geta í sameiningu lagt Úkraínu lið,“ segir Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs.

Innrás Rússa hefur vakið hörð viðbrögð um allan heim og Norðurlandaráð hefur einnig sent frá sér yfirlýsingar. Daginn sem innrásin hófst sendi forsetinn frá sér yfirlýsingu þar sem framferði Rússa var harðlega fordæmt og síðar sendi forsætisnefnd Norðurlandaráðs sömuleiðis frá sér yfirlýsingu í sama dúr.

Ekki bara Úkraína

Til þemaþingsins koma allir 87 fulltrúar Norðurlandaráðs en þingið hefst á því að flokkahóparnir fimm og fagnefndirnar fjórar auk forsætisnefndarinnar halda fundi mánudaginn 21. mars.

Á öðrum degi þingsins stendur þingfundur yfir allan daginn. Auk umræðunnar um Úkraínu undir liðnum um málefni líðandi stundar verður einnig fjallað um eftirfylgni við hina svokölluðu Enestam-skýrslu sem fjallar um það hvernig efla megi norrænt samstarf á krísutímum. Þá verður jafnframt haldinn hliðarviðburður sem fjalla mun um lífið á landamærasvæðunum að faraldrinum loknum.

Einnig fara fram umræður um norræna velferðarlíkanið og þau úrlausnarefni sem það mun standa frammi fyrir í framtíðinni en það er málefni sem lögð er áhersla á í formennskuáætlun Finnlands. Finnland gegnir formennsku í Norðurlandaráði árið 2022.

Seinni þingdaginn verður haldinn hliðarviðburður sem fjalla mun um lífið á landamærasvæðunum að faraldrinum loknum.

Jafnframt verður 70 ára afmæli Norðurlandaráðs fagnað á þemaþinginu.

Opið fjölmiðlum

Þingfundurinn 22. mars verður opinn fjölmiðlum. Blaðamenn sem vilja fylgjast með þemaþinginu geta sett sig í samband við Josefine Carstad, joscar@norden.org (+45 22 35 70 13) eða Matts Lindqvist, matlin@norden.org (+45 29 69 29 05).

Þingfundinum verður streymt beint á netinu á Norden.org. Hlekkur kemur síðar.