Verðbólga og framleiðni ofarlega á dagskrá á fundi norrænu fjármálaráðherranna
Síðustu ár hefur eitt helsta viðfangsefni norrænu fjármálaráðherranna að bregðast við mikilli verðbólgu. Þrátt fyrir að verðbólgan hafi hjaðnað í flestum norrænu löndunum eru langvarandi verðbólga og hætta á neikvæðum afleiðingum fyrir norrænan efnahag og vinnumarkaði enn mikil áskorun. Ráðherrarnir ræddu forgangsatriði í efnahagsstefnum norrænu landanna í ljósi hættu á langvarandi verðbólgu og annarrar áhættu fyrir Norðurlönd, þar á meðal hina geópólitísku stöðu sem upp er komin í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Efla hagvaxtarmöguleika og samkeppnishæfni
Ráðherrarnir ræddu hvað norrænu löndin geta gert ein og sér og í sameiningu til að auka framleiðni og hagvöxt á svæðinu. Umræðurnar tóku mið af kynningu OECD með ráðleggingum fyrir norrænu löndin, þar á meðal úr síðustu skýrslu OECD, „Going for Growth 2023“. Þrátt fyrir að framleiðni á Norðurlöndum sé meðal þess sem gerist mest í heiminum hefur hún lítið aukist um langt árabil, líkt og í öðrum þróuðum hagkerfum.
„Það er mikilvægt að við ræðum sameiginlegar áskoranir okkar í efnahagsmálum og hvernig samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni getur stutt við landsbundnar aðgerðir til að efla vaxtarmöguleika og samkeppnishæfni Norðurlanda til langs tíma,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra Íslands, sem var fundarstjóri. Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár.
Norræn reynsla af stuðningsaðgerðum í orkumálum
Ráðherrarnir ræddu einnig reynslu norrænu landanna af stuðningsaðgerðum í orkumálum. Í ljósi hækkandi orkuverðs kynntu mörg norrænu landanna árið 2022 og 2023 ýmsar stuðningsaðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki sem þessar hækkanir bitnuðu sérstaklega á. Á fundinum var samstaða um að nýta beri þetta tímabil stuðningsaðgerða til heimila og fyrirtækja til að efla samnorrænan reynslugrundvöll. Slíkt gæti hjálpað til við að bæta stefnumótun í norrænu löndunum ef álíka kreppur koma upp í framtíðinni. Norrænu fjármálaráðherrarnir koma að jafnaði saman einu sinni á ári til að ræða sameiginlegar áskoranir í efnahagsmálum og hvernig norrænt samstarf á því sviði getur skapað aukið gildi fyrir norrænu löndin. Áætlað er að næsti fundur verði árið 2024 undir formennsku Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni.
Það er mikilvægt að við ræðum sameiginlegar áskoranir okkar í efnahagsmálum og hvernig samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni getur stutt við landsbundnar aðgerðir til að efla vaxtarmöguleika og samkeppnishæfni Norðurlanda til langs tíma.