Vestnorræn þróunaráætlun í farvatninu

17.11.14 | Fréttir
Nes, Hvalba
Photographer
Erik Christensen, Nes, Hvalba
Á fundi sínum í Reykjavík þann 12. nóvember ýtti Norræna ráðherranefndin um byggðamál starfi að nýrri þróunaráætlun fyrir Vestur-Norðurlönd úr vör. Einnig ræddu ráðherrarnir aukna áherslu á lífhagkerfi í norrænu svæðasamstarfi.

Í norrænu samstarfsáætluninni um byggðamál er sjónum beint að sjálfbærri þróun velferðar, sjálfbærri stefnu í atvinnumálum á norðurslóðum og ekki síst grænum hagvexti.

Ný þróunaráætlun fyrir vestnorræna svæðið á að koma til viðbótar við samstarfsáætlunina, en það er gert á grundvelli tillögu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og með hliðsjón af því starfi sem unnið er á sviði byggðamála innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar.

Markmiðið er að auka skilvirkni í samstarfi um stefnumarkandi þróunarsvið og tryggja betri nýtingu fjármagns sem veitt er í verkefni sem fram fara á svæði sem tekur til Grænlands, Færeyja, Íslands og strandlengju Noregs.

OECD telur mikilvægt að leggja áherslu á sjálfbæra þróun í sjávarútvegi, aukna fjölbreytni í efnahagslífinu, bætt samskiptanet og aukið samstarf um viðbrögð við áskorunum í loftslagsmálum.

Norræna Atlantshafsnefndin (NORA), stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt Atlantshafssamstarf, verður þungamiðja áætlunarinnar í samstarfi við ýmsar stofnanir og svæði, auk landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi.

Lífhagkerfi í brennidepli

Samtímis því að ráðherrarnir funduðu stóð Nordregio, rannsóknastofnun Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðaþróun, fyrir vel sóttri ráðstefnu um þróun norræna lífhagkerfisins og svæðisbundna nýsköpun.

„Breytingar eru framundan í tengslum við nýja lífhagkerfið. Hvernig hyggjumst við mæta þeim? Eigum við að bregðast jafnóðum við breytingum og þeim kostnaði sem þær hafa í för með sér, eða eigum við að vera forvirk og nýta okkur ný sóknarfæri?“ sagði Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í ræðu sinni á ráðstefnunni.

Með orðum sínum átti hann ekki síst við umskiptin frá hagkerfi sem byggir á jarðefnaeldsneyti til hagkerfis sem byggir á lífrænu eldsneyti, með áherslu á sjálfbæra en jafnframt nýstárlega og þverfaglega nýtingu náttúruauðlinda.

Sóknarfæri á Norðurslóðum

Á ráðstefnu um lífhagkerfi norðurslóða sem fram fór daginn fyrir ráðherrafundinn fullyrti Christian Patermann, forkólfur starfs ESB um málefni lífhagkerfis, að lífhagkerfinu fylgdu ýmis sóknarfæri. 

Einhugur ríkti um það á ráðstefnunni að þetta ætti ekki síst við um Vestur-Norðurlönd, þar sem sjávarútvegur er umsvifamikill og möguleikar miklir í fiskeldi og á fleiri sviðum lífhagkerfisins.

„Þörfin er einnig mikil fyrir sameiginlega áætlun og svæðisbundinn stefnumótunarvettvang, ekki síst til að rannsaka möguleika á þverfaglegu samstarfi sviða og styrkja svæðisbundna og staðbundna þróun,“ sagði Sigrún Elsa Smáradóttir, verkefnisstjóri fyrir starf Norrænu ráðherranefndarinnar um lífhagkerfi á norðurslóðum, um leið og hún lýsti ánægju sinni með nýja áætlun um vestnorrænt samstarf.

Embættismannanefndin um byggðaþróun mun fjalla um þróunaráætlunina fyrir næsta ráðherranefndarfund sem haldinn verður á árinu 2015. Endanleg áætlun mun liggja fyrir á árinu 2016.