„Við viljum stöðva veiruna en ekki fólk“

Það var danska þingkonan Liselott Blixt, sem situr í norrænu velferðarnefndinni, sem vakti máls á norrænu COVID-19-vegabréfi.
„Löndin brugðust við með ólíkum hætti í upphafi faraldursins en nú vitum við öll meira um mikilvægi skimunar og smitrakningar. Ættum við að taka upp COVID-19-vegabréf á grundvelli skimunar? Er það eitthvað sem forsætisráðherrarnir vilja ræða?“ spurði hún.
Hóflega jákvæð
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, tóku hugmyndinni vel.
„Sem stendur veltum við fyrir okkur reglubreytingum sem gera fólki kleift að ferðast yfir landamæri ef það er með neikvæða niðurstöðu úr skimun. Við viljum stöðva veiruna en ekki fólk,“ sagði Sanna Marin.
„Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að skoða þetta betur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir
Öflug önnur bylgja
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagðist einnig vilja finna lausnir til að gera ferðalög um Norðurlönd öruggari.
„En ef til vill ekki einmitt núna þegar Evrópa eins og hún leggur sig gengur í gegnum öfluga aðra bylgju faraldursins,“ sagði hún.
Umræða forsætisráðherranna og þingmanna var hluti af þingviku Norðurlandaráðs sem fram fer í stað hins árvissa þings ráðsins. Til stóð að halda þingið á Íslandi í þessari viku en því var aflýst vegna faraldursins.
Ungir Norðurlandabúar eiga erfitt
Aldísi Mjöll Geirsdóttur, nýkjörnum forseta Norðurlandaráðs æskunnar, lék hugur á að vita hvernig forsætisráðherrarnir hyggist koma til hjálpar öllu því unga fólki sem verður illa úti vegna faraldursins.
„Margt ungt fólk hefur það slæmt vegna þess að það hefur neyðst til að hverfa frá námi og á erfitt með að finna vinnu. Hvað ætlið þið að gera?“
Fleiri námspláss
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði frá átaki í menntamálum sem meðal annars felur í sér 4000 ný námspláss og ákvörðun um að efla skólaheislugæslu í því verkefni að styðja við ungt fólk sem á erfitt andlega.
Katrín Jakobsdóttir sagði að andleg heilsa ungs fólks hefði vegið þungt í þeirri ákvörðun að halda skólum opnum á Íslandi í faraldrinum.
Störf og nám skipti mestu máli
Bæði Mette Frederiksen og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, lofuðu því að mikil áhersla yrði lögð á nám og störf fyrir ungt fólk.
„Baráttan við atvinnuleysi er í fyrsta sæti þegar við endurreisum samfélagið eftir faraldurinn og þá nýtur unga fólkið forgangs,“ sagði Stefan Löfven.