Handhafi Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2018

Vinderen af Nordisk Råds miljøpris 2018

Náttúruauðlindaráðið í Attu við vesturströnd Grænlands hlýtur Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Photographer
Johannes Jansson
Náttúruauðlindaráðið í Attu við vesturströnd Grænlands hlýtur Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Náttúruauðlindaráðið í Attu við vesturströnd Grænlands hlýtur Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2018. Það var tilkynnt rétt í þessu á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Ósló. Náttúruauðlindaráðið í Attu hlýtur verðlaunin fyrir ötult starf að skrásetningu upplýsinga um hafsvæði og fyrir tillögur að leiðum til stjórnunar hafsvæða. 

Rökstuðningur dómnefndar

Veiðimenn og fiskimenn á Attu-svæðinu í vesturhluta Grænlands hafa um árabil sýnt gott fordæmi með þátttöku sinni í starfi náttúruauðlindaráðsins á svæðinu. Þeir hafa skrásett athuganir sínar á náttúrunni og tekið virkan þátt með því að deila viðamikilli þekkingu sinni á staðháttum, meðal annars með því að leggja til nýjar leiðir til stjórnunar og leggja af mörkum þekkingu til fjölda rannsóknarverkefna. 

Náttúruauðlindaráðið í Attu var stofnað árið 2014 og er eitt af fimm ráðum á sama sviði sem eru hvað virkust á Grænlandi. Ráðin starfa á vegum opinberu áætlunarinnar PISUNA*, sem var ýtt úr vör árið 2009. Markmiðið með áætluninni er að efla aðkomu almennings að skrásetningu og stjórnun á umhverfinu og lifandi auðlindum þess með aðgengilegum og nýskapandi hætti.   

Athuganir náttúruauðlindaráðanna á vegum PISUNA sýna hvernig lýðræðisleg aðkoma almennings eykur þekkingu á hafsvæðum og umhverfi, eflir stjórnun og eykur ábyrgðartilfinningu og tengslamyndun íbúa svæðisins gagnvart umhverfi og náttúru. 

Náttúruauðlindaráðin eru uppspretta félagslegrar samkenndar sem eflir samráð og samstarf milli almennings, vísindasamfélagsins og stjórnunaraðila. Þau hafa þegar getið af sér svipuð verkefni m.a. í Finnlandi og Rússlandi og hafa alla burði til að breiðast út til margra fleiri landa og sviða, á hafi og landi, á norðurslóðum sem og utan þeirra, til góðs fyrir náttúru og umhverfi.

*PISUNA er skammstöfun á grænlenska heitinu Piniakkanik sumiiffinni nalunaarsuineq (ísl. „skrásetning og stjórnun lifandi auðlinda“).