Merete Pryds Helle og Helle Vibeke Jensen (myndskr.)

Merete Pryds Helle & Helle Vibeke Jensen
Photographer
Trine Søndergaard & Henriette Mørk
Merete Pryds Helle og Helle Vibeke Jensen (myndskr.): Min øjesten. Myndskreytt unglingabók, Dansklærerforeningens Forlag, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

„Pabbi segir að það sé ekki mér að kenna, það að systir mín skuli vera með glerauga. En hann segir líka að það sé ekki sér að kenna að mamma sé flutt inn á Jasmin stóru systur mína sem býr á stúdentagarði.“

Þannig kynnir Merete Pryds Helle eitt af stefjum bókarinnar: sekt. Annað stef, hið náttúrulega og hið tilbúna, stendur rétt á undan: „Systir mín er með glerauga. Hún er alltaf að skipta um það, af því að liturinn á glerauganu passar ekki við hitt augað … Mamma segir að það sé vegna þess að það sem lifir skipti sífellt litum, að ekkert sé fast í hendi.“

Merete Pryds Helle er á meðal fjölhæfustu rithöfunda Danmerkur. Hún skrifar ljóð, skáldsögur – sem hún hefur meðal annars hlotið bóksalaverðlaunin De gyldne laurbær fyrir – glæpasögur, barnabækur og gagnvirkar sms-skáldsögur. Hún hefur frábært vald á öllum hinum margbreytilegu þáttum danskrar tungu og kann listina að nýta þá möguleika sem liggja milli línanna, eins og í tilvitnuninni að ofan, þar sem þau orð að „ekkert sé fast í hendi“ skírskota til fleiri þátta í frásögninni.

Stúlkan sem segir söguna datt á hjóli þannig að stýrið rakst í auga systur hennar, sem missti augað í kjölfarið og fékk glerauga í staðinn. Um svipað leyti flutti móðirin að heiman, vegna þess að – eins og við komumst að síðar – „ástarauga [föðurins] var orðið blint“. Það játar hann þegar hann kemur dætrum sínum á óvart úti í garði að nóttu til, þar sem þær hugðust sjá með mánaaugunum sínum.

Augað er gegnumgangandi í aðferðum höfundar til að knýja frásögnina áfram með tilstilli hugrenningatengsla. Þannig tengir hún saman steininn hringlaga sem felldi hjólið um koll, gleraugað sem systirin fékk, og svo annars konar augu sem birtast þegar horft er á heiminn gegnum gleraugað. Þar koma í ljós rósir móðurinnar, næturlífið í garðinum, fuglar og fiðrildi.

Og systirin slær því föstu að „hefði þetta ekki gerst, hefði [hún] aldrei komist að því að hún ætti lifandi auga.“ Andstætt hinum hefðbundna skýra greinarmun á því tilbúna og hinu náttúrulega heldur höfundurinn fast við víxlverkun þessara tveggja þátta tilverunnar.

Þetta er undirstrikað enn frekar af myndskreyti bókarinnar, Helle Vibeke Jensen, sem nýtir sterka liti og skýr mynstur til að framkalla þá krafta sem búa í glerauganu. Við sjáum verur sem geta leitt hugann að skýrleika og friði austræna mandala-teikninga og þeirri lifandi furðu og hverfulleika sem hægt er að framkalla með því að bera kviksjá upp að auganu og snúa.

Helle Vibeke Jensen, sem hefur hlotið myndskreytiverðlaun danska menningarmálaráðuneytisins, hefur gert ýmsar tilraunir með myndabækur án orða og hefur meistaralegt vald á því að tjá lífið sjálft í mynstri. Þannig auðgar hún þessa frásögn um sekt, ást, náttúru og hið tilbúna; hún fyllir ekki upp í hið auða pláss milli línanna heldur skapar sinn eigin, hliðstæða heim sem getur bæði vakið óróa og hugleiðsluástand. Mikil myndlist er fólgin í því að sýna það sem kemur okkur svo skýrt fyrir sjónir í myrkri blindunnar.

Sömuleiðis útheimtir það mikla frásagnarlist að skapa sögu sem er svo marglaga að lesandinn getur komið að henni aftur og aftur og fundið nýtt samhengi milli tenginga sem fléttast innan í og utan um hver aðra.

Svo mikið líf á svo takmörkuðu plássi!