Bolatta Silis-Høegh
Aima er í öðrum bekk og þær Mathilda, besta vinkona hennar, hafa ákveðið að vera samferða heim úr skólanum. Þær fara ekki beinu leiðina heim, þó að Aima hafi lofað mömmu sinni því. Fyrst þarf að ærslast dálítið og svo er stelpunum boðið í heimsókn til móður fjallsins, sem Aima ákveður með sjálfri sér að sé amma Mathildu. Amman er með stóran, kringlóttan maga og enn stærri afturenda, og þegar hún hlær hristist fjallið eins og það leggur sig. Móðir Aimu verður óróleg þegar hún kemur ekki heim á tilsettum tíma.
Aima Qaqqap Arnaalu („Aima hittir móður fjallsins“, hefur ekki komið út á íslensku) er falleg myndabók fyrir börn á aldrinum 4-8 ára, sem þekkja sjálf löngunina til að gera hlutina á eigin vegum, spennuna í því sem er dálítið bannað og nautnina sem felst í því að láta dekra við sig heima hjá ömmu og gleyma alveg hvað tímanum líður.
Við kynntumst hinni ákveðnu Aimu litlu fyrst í bók Bolöttu Silis-Høegh frá 2010. Þá var hún að byrja í skóla og lét sig dreyma um hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. Árið 2014 eignaðist Aima svo kátan, ímyndaðan vin sem hélt fyrir henni vöku á hverju einasta kvöldi – foreldrum hennar til mikillar skapraunar. AIMA qaa schhh! var tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016.
Í millitíðinni hefur Bolatta Silis-Høegh fest sig enn frekar í sessi sem einn helsti myndlistarmaður Grænlands og til allrar hamingju á hún enn lykilinn að bernskuheimi sínum á Suður-Grænlandi, sem hún sækir innblástur í fyrir hinar skemmtilegur sögur um Aimu. Í myndskreytingunum eru vatnslitamyndir notaðar í bland við ljósmyndir og klippimyndir, og óvanalegur stíllinn hæfir vel hinni hugvitsamlegu málbeitingu í textanum. Myndabækur Bolöttu Silis-Høegh sýna heiminn frá sjónarhorni barnsins í bókstaflegri merkingu, því það eina sem sést af fullorðna fólkinu eru fæturnir.
Yndisleg bók […] Verkið geislar frá sér snjókornum og lífsgleði.
Þetta er meginniðurstaðan í gagnrýni danska dagblaðsins Politiken um Aima Qaqqap Arnaalu – og segir líka allt sem segja þarf!