Friðarstarf og kórónufaraldurinn á dagskrá er Norðurlandaráð hefur nýtt starfsár

18.01.21 | Fréttir
Votering vid Nordiska rådets session i Stockholm 2019
Photographer
Johannes Jansson
Norðurlandaráð hefur nýtt starfsár með fjarfundum dagana 25. og 26. janúar. Á fundadögunum tveimur verður meðal annars efnt til málþings um friðarviðræður og átakavarnir. Málefni kórónufaraldursins verða einnig á dagskrá.

Á janúarfundunum kemur allt Norðurlandaráð saman, sem þýðir að allir fimm flokkahóparnir, fagnefndirnar fjórar og forsætisnefndin munu funda.

Að auki verður efnt til sameiginlegs friðarmálþings fyrir allt Norðurlandaráð. Markmiðið með málþinginu er að greina tækifæri fyrir ráðið til að beita sér með samhæfðari hætti svo að norrænt samstarf um friðarviðræður og átakavarnir skili sem mestu norrænu notagildi.

Málþingið byggir á norrænni friðarskýrslu frá 2019, New Nordic Peace: Nordic Peace and Conflict Resolution Efforts.

Friður og átakavarnir eru málefni sem hafa verið ofarlega á baugi í starfi Norðurlandaráðs á undanförnum árum og um þau er einnig fjallað í stefnunni um samfélagsöryggi sem ráðið samþykkti árið 2019.

„Friðarstarf og samfélagsöryggi fara saman. Við lifum ekki einangruðu lífi, við erum öll tengd hvert öðru. Þetta hefur komið enn skýrar fram samfara kórónufaraldrinum. Nú er tímabært að finna öflugar, sameiginlegar lausnir. Norðurlönd þurfa áhrifamikla stefnu í friðarstarfi. Átakavarnir fela einnig í sér að axla aukna ábyrgð á loftslagsbreytingum. Aðgerðir eru tímabærar. Ekki á morgun, heldur núna,“ segir Erkki Tuomioja, formaður landsdeildar Finnlands í Norðurlandaráði og fundarstjóri á málþinginu.

Danir hafa tekið við formennskunni

Danir tóku við formennsku í Norðurlandaráði fyrir árið 2021 um áramótin. Janúarfundir ráðsins marka upphaf starfsársins í norrænum stjórnmálum og mun kórónufaraldurinn setja mark sitt á árið, að minnsta kosti enn um sinn.

Vegna COVID-19 fara allir fundir fram rafrænt og auk þess hefur faraldurinn áhrif á pólitíska dagskrá málþingsins. Meðal annars fjallar hagvaxtar- og þróunarnefndin um tillögu sem varðar frjálsa för á Norðurlöndum á hættutímum. Flokkahópur miðjumanna í Norðurlandaráði hefur lagt fram tillögu um samnorræna rannsókn á því hvernig afstýra megi landamæralokunum þegar hættuástand kemur upp í framtíðinni.

Faraldurinn verður einnig á dagskrá forsætisnefndarinnar, sem ræðir meðal annars þær raskanir og hindranir á frjálsri för sem hafa fylgt faraldrinum.