Niðurstöður þemaumræðna ráðherra menningarmála og fjölmiðla á Norðurlöndum

28.09.17 | Yfirlýsing
Ráðherrar menningarmála og fjölmiðla á Norðurlöndum og fulltrúar norrænna almannafjölmiðla ræddu þær áskoranir sem almannafjölmiðlar á Norðurlöndum standa frammi fyrir í stafrænni framtíð frá norrænum sjónarhóli á fundi í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. maí 2015.

Upplýsingar

Samþykkt
12.05.2015
Staðsetning
Thorshavn, Færøerne

Almannafjölmiðlarnir á Norðurlöndum hafa hingað til haft sérstöku hlutverki að gegna varðandi lýðræðislega umræðu í norrænum samfélögum og varðandi það að bjóða almenningi upp á sameiginlegar upplifanir á grundvelli mismunandi menningarlegra og samfélagslegra gilda norrænu landanna.

Stafræn þróun í fjölmiðlaheiminum felur í sér að sífellt fleiri munu geta valið og sótt sér sjálfir þá þætti og efni sem þeir vilja sjá og heyra frá breiðum hópum landsbundinna og alþjóðlegra efnisveitna. Þá vakna grundvallarspurningar um tilgang, hlutverk og starfshætti norrænna almannafjölmiðla á komandi árum. Formennska Dana vill að þessar spurningar verði teknar til umræðu í Norrænu ráðherranefndinni.

Ráðherrar menningarmála og fjölmiðla á Norðurlöndum og fulltrúar norrænna almannafjölmiðla ræddu þær áskoranir sem almannafjölmiðlar á Norðurlöndum standa frammi fyrir í stafrænni framtíð frá norrænum sjónarhóli á fundi í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. maí 2015.

Á fundinum lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi þess að norrænu almannafjölmiðlarnir eigi áfram að gegna mikilvægu stuðningshlutverki fyrir lýðræðislega umræðu í samfélaginu í framtíð sem mótast af stafrænni tækni. Almannafjölmiðlarnir eiga áfram að tryggja almenningi á Norðurlöndum óháðan fréttaflutning og breitt úrval af frumlegu, hugvekjandi og áhugaverðu almannaþjónustuefni í háum gæðaflokki sem byggist á menningarlegum og samfélagslegum gildum Norðurlanda og styður við tungumál landanna.

Ráðherrarnir lögðu einnig áherslu á að reglugerðarramminn utan um hlutverk almannafjölmiðla ætti að vera með þeim hætti að þeir gætu miðlað almannaþjónustuefni þannig að allur almenningur geti haft aðgang að og gagn af þeim í heimi stafrænnar fjölmiðlunar. Þetta á sérstaklega við um börn og ungmenni sem eru sameiginleg framtíð okkar.          

Norrænu löndin voru jafnframt sammála um að halda áfram að ræða hvort tveggja hlutverk almannafjölmiðla í ljósi þróunar stafrænnar tækni og reglugerðarramma þeirra.