Hæfni framtíðarinnar

Tilgangurinn með því að koma á fót sameiginlegri norrænni dagskrá um hæfni framtíðar er að undirbúa enn frekar börn, ungt fólk og fullorðna undir samfélag framtíðarinnar. Við viljum leggja okkar af mörkum til þess að allir íbúar Norðurlandanna séu eins vel í stakk búnir og kostur er til þess að mæta flókinni framtíð með nægilegri þekkingu og hæfni. Og það sem er kannski ekki síður mikilvægt, að mæta heiminum með góðum samstarfshæfileikum, forvitni og gagnrýnni hugsun.

Framtíðin felur í sér breytingar. Hún gleður og hræðir. Í breytingum felast bæði tækifæri og áskoranir. Breytingar krefjast umbreytinga hjá okkur sjálfum. Læra nýja hluti. Taka á móti nýjum lausnum. Leysa ný vandamál. Spyrja gagnrýnna spurninga. Breytingar kalla á nýja hæfni. Formlega og óformlega. Þverfaglegt samstarf, hugmyndauðgi, nýsköpun, gagnrýnin hugsun, stafræn dómgreind og lýðræðisþroski er mikilvægara en nokkru sinni fyrr.

Hæfni framtíðarinnar byggir á mörgum þeim gildum sem við eigum sameiginleg og stöndum vörð um á Norðurlöndum. Við trúum á lýðræði, tjáningarfrelsi, jafnrétti, heiðarleika og gagnsæi. Þetta eru gildi okkar sem eru forsenda þess að okkur takist að skapa nýja hluti, þróa þá og framkvæma. Og við erum í forystu þegar kemur að trausti. Við treystum hvert öðru og það er stærsti styrkleiki okkar þegar við þurfum að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Traustið á að saman getum við fundið sameiginlegar lausnir.

Gegnum Norrænu ráðherranefndina um menntamál og rannsóknir vinnum við saman að því að skapa einmitt þetta. Að því að finna nýjar norrænar lausnir á sameiginlegum áskorunum. 

Menntun er lykill að hæfni framtíðar. Það er einnig mat Norðurlandabúa. Raunar nefna þeir menntun sérstaklega sem eitt af mikilvægustu samstarfssviðunum á Norðurlöndum – og þeir vilja gjarnan sjá meira af því.

Nám á sér stað allt lífið. Í leikskólum, skólastofum, fyrirlestrarsölum, á leikvöllum skólanna og vinnustöðum, í kvöldskólum og starfsnámi. Og einnig í frítímanum, gegnum stafræna miðla, í íþróttasölum, við varðeldinn, í kórnum og með vinunum. Á öllum þessum sviðum þróast og birtist hæfnin til þess að grípa tækifæri framtíðarinnar og takast á við áskoranirnar. Til þess að leggja sitt af mörkum í næstu tæknibyltingu. Til þess að gera heiminn betri fyrir komandi kynslóðir. Þetta snýst líka um þroska. Um að virkja sameiginleg norræn gildi á nýjan hátt.

Norðurlöndin hafa bæði forsendur og metnað til þess að vera í forystu þegar rætt er um hæfni til framtíðar. Það er nefnilega hægt að gera hlutina á norrænan hátt – einnig í framtíðinni.

Drifkrafturinn? Hann kemur frá okkur sjálfum. Hinum 27 milljónum íbúa Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands, Íslands, og Grænlands, Álandseyja og Færeyja. Saman sköpum við framtíðina.