Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um stafræn umskipti

Unge kvinder med telefoner
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org
Framtíðarsýn okkar er að Norðurlönd og Eystrasaltsríkin verði samþættasta svæði heims. Til að svo megi verða er samstarf um stafrænar lausnir lykilatriði.

Markmið samstarfsins er að til verði stafrænn innri markaður Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Mikilvægir liðir í samstarfinu eru aðgangur að stafrænni þjónustu þvert á landamæri og að greiða fyrir nýskapandi stafrænum lausnum sem stuðla að stafrænum grænum umskiptum. Auk þess er áhersla lögð á stafrænt traust með því að styrkja stafræna aðlögun og ábyrga stafræna stjórnun.

Norðurlönd og Eystrasaltsríkin eru meðal stafvæddustu landa heims og þeirra mest nýskapandi. Til að halda þessu samkeppnisforskoti stendur metnaður til að stafrænni samþættingu verði haldið áfram á svæðinu.

Norræna ráðherranefndin um stafræn umskiptir, MR-DIGITAL, vinnur að sameiginlegum lausnum á þeim vandamálum sem mæta almennum borgurum og fyrirtækjum sem stunda nám, starfa eða reka fyrirtæki þvert á landamæri innan svæðisins. Um leið er greitt fyrir tæknilausnum sem auðvelda frumkvöðlum að þróa nýja þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki.

Stafræn umskipti er þverfaglegt svið sem nær til ýmissa ráðherranefnda í norrænu samstarfi. Vinnan að stafrænum umskiptum byggir á ráðherrayfirlýsingunni Digital North 2.0. Þessi yfirlýsing var unnin árið 2020 og byggir á sameiginlegum áherslum Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og fyrri ráðherrayfirlýsingu, Digital North 2017-2020.

Árið 2017 var stofnuð ráðherranefnd um stafræn umskipti (MR-DIGITAL) til að efla vinnu að stafrænum umskiptum, samræma verkefni og fylgja eftir markmiðum yfirlýsingarinnar. Markmiðið er að greiða fyrir þróun á þremur sviðum:

  1. Auka hreyfanleika og samþættingu á svæði Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með því að byggja upp sameiginlegan vettvang fyrir stafræna þjónustu þvert á landamæri.
  2. Greiða fyrir grænum hagvexti og sjálfbærri þróun á svæði Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með nýsköpun sem byggir á gögnum og réttlátu hagkerfi miðlunar og endurnýtingar gagna.
  3. Greiða fyrir forystu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í ESB/EES í sjálfbærum og samþættum stafrænum umskiptum í samfélögum um heim allan.

Norræna ráðherranefndin um stafræn umskipti og aðildarlöndin hrinda í framkvæmd fjölda verkefna sem unnin eru í einstökum löndum en samræmd og stýrt miðlægt í gegnum skrifstofu hennar.

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um Framtíðarsýn okkar 2030

Í framkvæmdaáætluninni er lýst hvernig Norræna ráðherranefndin hyggst vinna að því að ná markmiðum framtíðarsýnarinnar með fjölmörgum verkefnum sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Hinar stefnumarkandi áherslur og markmið vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætluninni er skipt í tólf hluta og fjallar hver þeirra um eitt markmið.