Menningarmálaráðherrar á Norðurlöndum: Netið á að vera öruggt fyrir börn og ungmenni

13.11.23 | Fréttir
Unga på sociala medier
Photographer
Johan Alp
Áhrif stóru tæknirisanna á hið lýðræðislega samfélag skapa áskoranir í öllum norrænu löndunum. Algóritmar stýra því hvaða upplýsingar við sjáum á netinu og fjölmiðlaumhverfi tekur örum breytingum. Menningarmálaráðherrar Norðurlanda setja nú aukinn kraft í samstarfið í tengslum við börn og ungt fólk og hið borgaralega samfélag.

Norrænu menningarmálaráðherrarnir funduðu í þingvikunni í Ósló. Áhrif stafrænna miðla á borð við Facebook, Instagram og TikTok á lýðræðislega innviði samfélagsins og daglegt líf Norðurlandabúa voru ofarlega á baugi.

„Það er áhyggjuefni þegar fréttatextar birtast fólki ekki á sama tíma og það skortir á gagnsæi með tilliti til þess hvaðan upplýsingar koma. Um leið breytist tekjulíkanið og auglýsingatekjur lenda hjá miðlum utan norrænu landanna. Við verðum að standa vörð um lýðræðið og taka virkan þátt í umræðum við fulltrúa netmiðlanna,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra á Íslandi og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál.

Samnorrænar aðgerðir

Vald tæknirisanna yfir upplýsingaflæðinu er ekki bara áskorun í norrænu löndunum heldur þurfa umræður að eiga sér stað víðar, á innlendum, norrænum og evrópskum vettvangi og á alþjóðavettvangi.  Allir geta ekki gert allt og því vilja ráðherrarnir forgangsraða nokkrum málum sem mest ríður á að vinna saman um á norrænum vettvangi. 
Ráðherrarnir koma að fjármögnun norræns starfshóps um aukið lýðræðislegt öryggi fyrir börn og ungmenni, í takt við tillögur norrænnar hugveitu um tækni og lýðræði. Aðgerðin er til tveggja ára og er ætlað að leiða til aukinnar þekkingar á áhrifum samfélagsmiðla á börn og ungmenni ásamt því að koma með tillögur að pólitískum aðgerðum.

Á fundi ráðherranna var ákveðið að vinna áfram að því að efla hlutverk hins borgaralega samfélags varðandi lýðræðislega umræðuhefð á netinu og standa fyrir hringborðssamtali fulltrúa tæknirisanna og norrænna ráðherra til að halda áfram umræðum um þær áskoranir og tækifæri sem löndin standa frammi fyrir.

Mikilvægt að miðla reynslu á milli norrænu landanna

Mjög örar breytingar eiga sér stað á sviði stafrænnar þróunar á heimsvísu. Virkt samráð og miðlun reynslu á mismunandi stigum innan norræns samstarfs skiptir því höfuðmáli til þess að unnt sé að takast á við nýjar áskoranir.

„Það sem við tölum um í dag er orðið úrelt á morgun og því verðum við ráðherrarnir að vera vel undirbúnir og skiptast á reynslu og þekkingu. Þróun gervigreindar er bara eitt dæmi sem skapar ný tækifæri og áskoranir, ekki síst í tengslum við höfundarrétt,“ segir Lubna Jaffery, menningarmálaráðherra Noregs. 
Norrænu löndin geta verið í fylkingarbroddi þegar kemur að mikilvægum málum tengdum lýðræðinu að sögn Karenar Ellemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Það er ófrávíkjanlegt verkefni að standa vörð um lýðræðið á Norðurlöndum. Norrænt samstarf er mikilvægt því við erum lítil lönd með lítil málsvæði, en ef við stöndum saman heyrist rödd okkar betur bæði á Norðurlöndum og alþjóðlegum vettvangi.“

Tillögur hugveitunnar vísa veginn

Áhrif tæknirisanna hafa lengi verið ofarlega á baugi á Norðurlöndum og árið 2021 settu menningarmálaráðherrarnir á fót norræna hugveitu skipaða sérfræðingum frá norrænu löndunum til þess að greina áskoranir þar sem norrænar aðgerðir gætu skilað árangri.

Tillögur hugveitur voru kynntar í maí og tóku umræður á fundi ráðherranna mið af þeim.

Tillögurnar felast meðal annars í markvissum aðgerðum til að stuðla að stafrænu læsi, auknu öryggi fyrir börn og ungmenni á netinu, ritstjórn efnis og meðhöndlun rangra upplýsinga sem skapaðar eru af gervigreind.

Ráðherrafundurinn var haldinn í Ósló í tengslum við 75. þing Norðurlandaráðs þar sem menningarmálaráðherrarnir voru jafnframt viðstaddir verðlaunahátíð Norðurlandaráðs.

Contact information