Aukið afhendingaröryggi með norrænu samstarfi
Það kom í hlut Íslands sem formennskulands í Norrænu ráðherranefndinni að halda fund norrænu orkumálaráðherranna í Reykjavík. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir nýja yfirlýsingu um orkumál sem ætlað er að efla norrænt samstarf og er liður í því að uppfylla framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030.
„Breytt heimsmynd á tímum stríðsátaka og loftslagsbreytinga sýnir orkuöryggi og mikilvægi þess fyrir Norðurlönd í nýju ljósi. Ein stærsta áskorunin sem Ísland og Norðurlönd standa nú frammi fyrir er að tryggja almenningi og fyrirtækjum nægilegt framboð á grænni orku á viðráðanlegu verði. Ísland mun takast á við þessa áskorun á næstu árum í samstarfi við hin norrænu löndin. Aukin raforkuframleiðsla er forsenda þess að Norðurlönd nái háleitum markmiðum sínum í loftslagsmálum. Með áframhaldandi samstarfi eru Norðurlönd vel í stakk búin að taka að sér forystuhlutverk þegar kemur að nýrri orkutækni og nýsköpun á sviði orku- og loftslagsmála. Á Norðurlöndum eru til staðar gríðarleg tækifæri til aukinnar raforkuframleiðslu með vindorku, föngun koldíoxíðs og rafeldsneyti,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Öruggt orkuframboð
Yfirlýsingin tekur mið af þeirri stöðu sem Norðurlönd eru í. Staðan í öryggismálum í nærumhverfi Norðurlanda hefur skapað áskoranir í tengslum við orkuframboð. Í sameiningu hefur norrænu löndunum gengið vel að takast á við vandann. Hátt orkuverð til fyrirtækja og einstaklinga í fyrravetur sýndi þó mikilvægi þess að Norðurlönd séu ekki háð jarðefnaeldsneyti frá ríkjum sem ekki er hægt að treysta á. Þá má ekki gleyma loftslagsvandanum sem hefur raungerst með öfgakenndu veðri á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum, m.a. með úrhellisrigningum og óveðri í norðri og langvarandi þurrkum í suðri.
Með áframhaldandi samstarfi eru Norðurlönd vel í stakk búin að taka að sér forystuhlutverk þegar kemur að nýrri orkutækni og nýsköpun á sviði orku- og loftslagsmála.
Raunveruleg græn umskipti í orkumálum
Með það fyrir augum að takast á við áskoranir samtímans og uppfylla markmiðið um að verða samþættasta og sjálfbærasta svæði heims vilja norrænu orkumálaráðherrarnir efla samstarfið í tengslum við afhendingaröryggi auk þess að leggja aukna áherslu á endurnýjanlega orkugjafa á borð við sólar-, vind- og vatnsorku, jarðvarma, lífmassa og aðra raforkuframleiðslu sem miðast við þörf. Í þessu tilliti horfa orkumálaráðherrarnir m.a. til þeirra tækifæra sem felast í vindorku á hafi úti á bæði Atlantshafi, í Norðursjó, Eystrasaltinu og Barentshafi.
Mikilvægt að horfa til vetnis og annarrar nýrrar tækni
Ekki er hægt að rafvæða alla orkunotkun. Því vilja orkumálaráðherrarnir jafnframt aukið samstarf í tengslum við nýja tækni á sviði vetnis-, ammoníaks- og rafeldsneytis.
„Saman búum við yfir því sem til þarf á sviði rannsókna og nýsköpunar til þess að Norðurlönd geti verið í fararbroddi í þróun nýrrar tækni,“ segja norrænu orkumálaráðherrarnir.
Sú geópólitíska staða sem upp er komin í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu undirstrikar mikilvægi öruggs framboðs á orku á sanngjörnu verði. Á sama tíma hafa alvarlegar veðuröfgar í sumar um allan heim, einnig hér á Norðurlöndum, enn á ný sýnt fram á þörfina á raunverulegum grænum umskiptum. Öll norrænu löndin hafa sett sér háleit markmið í loftslagsmálum. Orkuumskipti eru algjör forsenda þess að þau náist og myndu auk þess styrkja afhendingaröryggi. Við þessar erfiðu aðstæður hefur norrænt samstarf sannað tilgang sinn og styrk.
Á fundi okkar í Reykjavík ræddum við, ráðherrar orkumála á Norðurlöndum, eftirfarandi:
- Hvernig við getum nýtt reynsluna af orkukrísunni í þágu öruggara orkuframboðs og grænna umskipta í norrænu löndunum. Mikilvægt er að draga lærdóm af þeim tíma sem við gengum í gegnum svo krísan nýtist sem lyftistöng fyrir nýja þróun um leið og við gætum hagsmuna neytenda við umskiptin. Norræn samstaða skiptir miklu máli, einkum með það fyrir augum að tryggja áframhaldandi afhendingaröryggi.
- Staðan í öryggismálum og sá orkuskortur sem af henni hlaust leiddi í ljós styrkleika og veikleika evrópskra raforkumarkaða og orkukerfa. Skortur á orku hafði í för með sér hærra verð. Síðastliðinn vetur mátti í öllum löndunum sjá að farið var sparlega með orku. Virkur raforkumarkaður, betri orkunýting og sveigjanleiki í orkunotkun stuðlar að afhendingaröryggi. Sett hefur verið af stað sameiginlegt verkefni sem tryggja mun miðlun reynslu á milli landanna.
- Aukin raforkuvæðing er afgerandi forsenda þess að orkuumskipti verði að veruleika og við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum og um að vera óháð innflutningi. Aukin raforkuframleiðsla innan Norðurlanda er verkefni hvers lands fyrir sig en löndin hafa yfir að ráða mismunandi náttúruauðlindum og velja mismunandi orkusamsetningar. Norrænu löndin eru þó nátengd og því styrkir öflugt norrænt samstarf bæði umskiptin og afhendingaröryggi og gerir kleift að halda kostnaði lágum. Á næstu árum verður framleiðsla endurnýjanlegrar raforku með sólar- og vindorku aukin til muna í bland við raforkuframleiðslu með vatnsafli, jarðvarma og lífmassa og aðra framleiðslu sem miðast við þörf til þess að tryggja megi bæði stöðugt og hagkvæmt orkukerfi og virkan raforkumarkað.
- Í vindorku á hafi eru fólgin tækifæri til þess að auka framleiðslu endurnýjanlegrar raforku til muna. Norrænu löndin geta nýtt svæði á bæði Atlantshafi, í Norðursjó, Eystrasaltinu og Barentshafi sem henta sérlega vel til uppbyggingar. Samstarf getur gert okkur kleift að því að nýta þetta mikla tækifæri, meðal annars með tilliti til innviða, umhverfismála, líffræðilegrar fjölbreytni, samfélagssáttar og öryggis þar sem byggja má góðar lausnir á sameiginlegri þekkingarmyndun.
- Ekki er hægt að rafvæða alla orkunotkun og því er vinnan í tengslum við vetnis-, ammoníaks- og rafeldsneyti mikilvæg. Slík ný tækni gerir græn umskipti möguleg í greinum sem erfitt er að rafvæða með beinum hætti. Þá eru norrænu löndin í góðri stöðu til þess að ná neikvæðri losun koldíoxíðs með föngun, flutningi og geymslu koldíoxíðs (CCS). Saman búum við yfir því sem til þarf á sviði rannsókna og nýsköpunar til þess að Norðurlönd geti verið í fararbroddi í þróun nýrrar tækni og dregið úr þörfinni á innflutningi jarðefnaeldsneytis. Sérstaklega eygjum við mikil tækifæri í norrænu samstarfi í tengslum við vetni og höfum hleypt af stokkunum sameiginlegum verkefnum til þess að styrkja góða stöðu Norðurlanda.
Sem ráðherrar orkumála á Norðurlöndum munum við halda hinu öfluga norrænu orkusamstarfi áfram til ársins 2030.