Bættar forsendur til náms við lýðháskóla á Norðurlöndum

27.06.19 | Fréttir
Bättre villkor för studerande
Photographer
norden.org

Nám við lýðháskóla og framhaldsskóla voru á dagskrá þekkingar- og menningarmálanefndar Norðurlandaráðs þegar hún fundaði í Færeyjum á dögunum. Á myndinni segir Bogi Bech Jensen rektor frá starfseminni á Glasir í Þórshöfn.

 

Ef þú hyggur á nám við lýðháskóla í öðru norrænu landi gæti það orðið kostnaðarsamt. Allavega miðað við gildandi reglur um styrki, en þekkingar- og menningarmálanefnd Norðurlandaráðs vill breyta því með nýrri tillögu.

Lýðháskólar á Norðurlöndum geta sótt um styrki til starfsmannaskipta úr norræna styrkjakerfinu Nordplus, en námsmenn geta ekki lengur sótt um styrki fyrir aukakostnaði vegna náms við lýðháskóla í öðru norrænu landi. Að sögn Norræna lýðháskólaráðsins hafa breytingar á reglum leitt til þess að námsmönnum við lýðháskóla annars staðar á Norðurlöndum hefur fækkað stórlega.

Bættar forsendur

Norrænir lýðháskólar gegna mikilvægu hlutverki við að auka skilning á tungumálum, menningu og lýðræðiskerfum Norðurlandanna auk þess sem þeir gefa nemendum kost á að mynda persónuleg tengsl milli landa.

Nefndin vill greiða fyrir jákvæðri þróun og auknum samskiptum með tillögunni „Bættar forsendur fyrir samstarfi norrænna lýðháskóla og hreyfanleika námsfólks“.

„Það að geta búið, starfað og stundað nám í öðru norrænu landi er forsenda norrænnar samvinnu,“ segir Kjell-Arne Ottosson, nýr formaður nefndarinnar.

Norrænu forsætisráðherrarnir vilja að Norðurlönd verði samþættasta svæði heims. Forsendur til náms eru aðeins ein af mörgum áskorunum sem þarf að leysa ef sú framtíðarsýn á ekki að vera orðin tóm.

Kjell-Arne Ottosson, formaður þekkingar- og menningarmálanefndar Norðurlandaráðs

Samþættasta svæði heims

Norræna ráðherranefndin birti fyrr á þessu ári framkvæmdaáætlun um hreyfanleika 2019–2021 og telur nefndin tillöguna sína vera á sömu línu og sú áætlun.

„Norrænu forsætisráðherrarnir vilja að Norðurlönd verði samþættasta svæði heim. Forsendur til náms eru aðeins ein af mörgum áskorunum sem þarf að leysa ef sú framtíðarsýn á ekki að vera orðin tóm,“ bætir Kjell-Arne Ottosson við.

Nefndin ræddi tillöguna á sumarfundi sínum í Færeyjum og verður hún nú send til afgreiðslu í forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

Um tillöguna

Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:

  • hún geri norrænum lýðháskólanemum fært að sækja persónulega um styrk úr Nordplus Vuxen fyrir aukakostnaði vegna fulls náms við lýðháskóla í öðru norrænu landi;
  • hún setji á fót styrkjakerfi innan ramma Nordplus fyrir kynningaraðgerðir norrænna samtaka lýðháskóla um möguleika til náms við lýðháskóla í öðru norrænu landi;
  • hún setji á fót styrkjakerfi innan ramma Nordplus sem gefi lýðháskólunum kost á að efla norræna ímynd sína.

Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til sænskra stjórnvalda:

  • þau veiti Centrala Studiestödsnämnden (Námsstuðningsnefnd ríkisins) umboð til að breyta reglum sínum í þá veru að sænskir námsmenn geti sótt um námsstyrki vegna náms við lýðháskóla í Noregi og Danmörku.

 

 

 

Contact information