Nefnd: Áhersla lögð á útivist á Norðurlöndum

09.04.19 | Fréttir
Natur och barn
Ljósmyndari
Anna Rosenberg
Norræn framkvæmdaáætlun á sviði útivistar myndi hvetja fólk til að stunda aukna útivist og standa jafnframt vörð um náttúruna, á tímum þegar áhugi á náttúrunni fer sífellt vaxandi. Þetta er mikilvægt með tilliti til heilbrigðis og sjálfbærni, að mati norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar sem ræddi málefnið á þemaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Náttúran skiptir marga einstaklinga á Norðurlöndum máli og það er gott fyrir heilsuna að vera úti í náttúrunni. Ýmiss konar útivist verður sífellt vinsælli, auk þess sem náttúran gegnir æ stærra hlutverki í ferðamennsku, en af því spretta nýjar kröfur hvað varðar sjálfbærni og innviði. 

„Náttúru- og menningarlandslag á Norðurlöndum stendur frammi fyrir nýjum áskorunum sem þýða að við verðum að vinna saman að því að umhverfi og útivistarlíf geti staðið undir fleiri gestum, svo og virkni til lengri tíma. Framkvæmdaáætlun á sviðinu getur innihaldið sjálfbær markmið, reynslu og lausnir frá norrænu löndunum varðandi það að efla útivist barna og ungmenna auk náttúruverndar,“ segir Aron Emilsson, varaformaður í norrænu þekkingar- og menningarnefndinni.

Nálægð við náttúruna mikilvæg

Víðfeðm náttúrusvæði á Norðurlöndum veita útivistariðkun þar mikla sérstöðu og íbúar norrænu landanna hafa rétt á að dvelja úti í náttúrunni að vild. „Tenging náttúrunnar við norrænan menningararf er mikilvæg“, segir Jorodd Asphjell, þingmaður í flokkahópi jafnaðarmanna.

„Á Norðurlöndum er sterk hefð fyrir útivist og náttúran er mikilvægt, opið svæði fyrir stór og smá. Það skiptir máli að við förum með náttúruna eins og auðlind, gerum okkur grein fyrir mikilvægi hennar hvað varðar lýðheilsu og hugleiðum hvernig virkja megi fleiri hópa samfélagsins til að stunda virka útivist.“

Rannsóknir hafa löngum sýnt að útivist dregur úr streitu og glæný rannsókn frá ferðamálarannsóknamiðstöðinni ETOUR sýnir að útivist og nálægð við náttúruna vega þungt þegar fólk velur sér stað til búsetu.

Börn og ungmenni, lýðheilsa og ferðamennska

Útivist er málefni sem spannar ýmiss konar þemu, fagsvið og ráðherranefndir, svo sem markmið SÞ um sjálfbæra þróun, málefni ferðamennsku, loftslags, barna og ungmenna, aðlögunar, lýðheilsu og rannsókna. Þingmannatillagan sem nú verður skoðuð nánar samanstendur af þremur eftirfarandi hlutum:

  • norræn framkvæmdaáætlun á sviði útivistar sem tekur til rannsókna, aðbúnaðar frjálsra félagasamtaka á sviði útivistar, aukinnar ferðamennsku, loftslagsmála og aðlögunar
  • rannsóknir á sviði útivistar á Norðurlöndum
  • í skoðun að skipuleggja samnorrænt útivistarár

Samtök um málefni útivistar vísa veginn

Aðdragandi tillögunnar er skýrslan Nordic Outdoor Life, sem norræn samtök á sviði útivistar hafa unnið að beiðni ráðherranefndarinnar um fiskveiðar, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS) og Norrænu barna- og ungmennanefndarinnar. Skýrslan var kynnt á fundi nefndarinnar á Akureyri 2018 og samræmast lokaniðurstöður hennar þeim aðgerðum sem lagðar eru til í þingmannatillögu flokkahóps jafnaðarmanna. Tillagan verður rædd frekar.

 

Tengiliður